30. jan. 2015

Safnanótt og Sundlauganótt framundan

Söfn í Garðabæ taka þátt í Safnanótt sem verður haldin föstudagskvöldið 6. febrúar nk. kl. 19-24. Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík og söfn á öllu höfuðborgarsvæðinu taka þátt í dagskránni. Kvöldið eftir laugardaginn 7. febrúar verður haldin Sundlauganótt sem einnig er hluti af Vetrarhátíð og að þessu sinni tekur Álftaneslaug í Garðabæ þátt í þeirri dagskrá annað árið í röð.
  • Séð yfir Garðabæ

Söfn í Garðabæ taka þátt í Safnanótt sem verður haldin föstudagskvöldið 6. febrúar nk. kl. 19-24. Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík og söfn á öllu höfuðborgarsvæðinu taka þátt í dagskránni. Kvöldið eftir laugardaginn 7. febrúar verður haldin Sundlauganótt sem einnig er hluti af Vetrarhátíð og að þessu sinni tekur Álftaneslaug í Garðabæ þátt í þeirri dagskrá annað árið í röð.  Fjölbreytt dagskrá verður í boði í söfnum Garðabæjar og Álftaneslaug af þessu tilefni. Ókeypis aðgangur verður í söfnin á Safnanótt og í Álftaneslaug á Sundlauganótt.

Í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar er hægt að sjá dagskrána í Garðabæ á Safnanótt og Sundlauganótt en jafnframt er hægt að sjá alla viðburði á vef Vetrarhátíðar, www.vetrarhatid.is

Safnanótt - föstudagskvöldið 6. febrúar - dagskrá í Hönnunarsafni - Króki - Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og á Álftanesi

Un peu plus- teikningar og skissur Helgu Björnssonar tískuhönnuðar  er heitið á nýrri sýningu í Hönnunarsafni Íslands sem opnar á Safnanótt.  Viðfangsefni sýningarinnar eru tískuteikningar Helgu Björnsson, sem var yfirhönnuður hátískulínu tískufyrirtækisins Lois Féraud í Frakklandi í tvo áratugi.  Í Hönnunarsafninu er einnig hægt að skoða hina vinsælu sýningu Ertu tilbúin frú forseti? þar sem sjónum er beint að fatnaði frú Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands.  Boðið verður upp á leiðsagnir um báðar sýningarnar í safninu kl. 20 og kl. 22 um kvöldið.  Hönnunarsafnið er til húsa að Garðatorgi 1.

Burstabærinn Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923.  Opið hús verður í Króki á Safnanótt, bílastæði eru við samkomuhúsið á Garðaholti við gatnamót Garðavegar og Garðaholtsvegar.

Í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi og á Álftanesi verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá á Safnanótt.   Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson flytja sönglög eftir Jóhann Helgason við ljóð Þórarins Eldjárns undir yfirskriftinni Gælur, fælur og þvælur.  Flutningur þeirra hefst kl. 19 á Garðatorgi og þau stíga einnig á svið í safninu á Álftanesi kl. 20 um kvöldið.   Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur fjallar um bókina ,,Dægradvöl“ eftir Benedikt Gröndal skáld og rithöfund (1826-1907) í báðum söfnunum, kl. 19 á Álftanesi og kl. 20:30 í safninu á Garðatorgi.   Skemmtileg og öðruvísi sýning er nefnist ,,Gleymt og geymt“ opnar í safninu á Garðatorgi.  Þar verða sýndir ýmsir munir sem hafa gleymst í bókum safnsins gegnum árin og Bryndís Björgvinsdóttir rithöfundur flytur hugleiðingu við opnun sýningarinnar kl. 20.  Á Garðatorgi verður einnig hægt að hlýða á kynningu á bók Vibeke Nörgaard Nielsen í þýðingu Sigurlínar Sveinbjarnardóttur um danska listmálarann Johannes Larsen kl. 21.30.

Sundlauganótt í Álftaneslaug – laugardaginn 7. febrúar - öldudiskó, zumba, tónlist og fljótandi slökun

Ókeypis aðgangur verður í Álftaneslaug um kvöldið laugardaginn 7. febrúar.  Boðið verður upp á öldudiskó um kl. 18:30, þar sem hægt verður að hlusta á hress lög við sundlaugarbakkann úti við og öldulaugin verður sett af stað.  Um kl. 19:30 geta sundlaugargestir prófað zumba í vatni.  Aqua zumba öðru nafni Zumba sundlaugarpartý gefur hressilegri líkamsþjálfun nýja merkingu.  Um kl. 20 stíga ungir og efnilegir Garðbæingar á svið við sundlaugarbakkann og halda stutta tónleika.  Hljómsveitina skipa þau Rebekka Sif Stefánsdóttir söngkona, Aron Andri Magnússon á rafgítar, Sindri Snær Thorlacius á rafgítar og Helgi Þorleiksson á trommur.   Síðar um kvöldið um kl. 20:30 geta sundlaugagestir slakað á í samfloti þar sem komið er saman og svifið um í leikandi léttu þyngdarleysi í hlýrri og notalegri innilauginni.  Til miðnættis verður svo tónlist og notaleg lýsing í sundlauginni fyrir sundlaugargesti.