30. jan. 2015

Fjölbreytt dagskrá á Degi tónlistarskólans

Fjölbreytt dagskrá verður í Tónlistarskóla Garðabæjar á Degi tónlistarskólans 2015 sem haldinn verður laugardaginn 31. janúar nk. Þá gefst Garðbæingum færi á að heimsækja skólann og njóta tónlistar af ólíku tagi. Dagskráin fer fram á báðum starfsstöðvum skólans, í Kirkjulundi 11 og í Breiðamýri á Álftanesi. Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna, sem er samstarfsverkefni fimm tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu, heldur tónleika í Langholtskirkju kl. 16.00 laugardaginn 31. janúar.
  • Séð yfir Garðabæ

Fjölbreytt dagskrá verður í Tónlistarskóla Garðabæjar á Degi tónlistarskólans 2015 sem haldinn verður laugardaginn 31. janúar nk.  Þá gefst Garðbæingum færi á að heimsækja skólann og njóta tónlistar af ólíku tagi.  Dagskráin fer fram á báðum starfsstöðvum skólans, í Kirkjulundi 11 og í Breiðamýri á Álftanesi.  Fjölmargir hæfileikaríkir nemendur koma fram og skemmta gestum og gangandi, þ.á.m. yngri blásarasveit skólans,  yngri strengjasveit, samspilshópar og einleikarar.  Dagskráin á Álftanesi hefst með kaffihúsatónleikum í hátíðarsal Álftanesskóla kl. 10.00, 10:30, 11.00 og 11.30.  Í húsnæði Tónlistarskóla Garðabæjar í Kirkjulundi verða haldnir tónleikar í báðum sölum skólans kl. 13.00, 13:30 og kl. 14.00.  Bæjarbúar og aðrir tónlistarunnendur eru velkomnir í heimsókn í tónlistarskólann við þetta tækifæri til að kynna sér þá blómlegu starfsemi sem fer fram í skólanum.

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar tónlistarskólanna kl. 16.00 í Langholtskirkju - einleikari er Helgi Þorleiksson nemandi við Tónlistarskóla Garðabæjar

Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna, sem er samstarfsverkefni  fimm tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu, heldur tónleika í Langholtskirkju kl. 16.00 laugardaginn 31. janúar.  Fjórtán nemendur úr Tónlistarskóla Garðabæjar hafa tekið þátt í hljómsveitarnámskeiði sem staðið hefur allar helgar í janúar og lýkur með þessum tónleikum.  Á tónleikunum koma fram 90 hljóðfæranemendur.
Einleikari með hljómsveitinni er Helgi Þorleiksson slagverksnemandi  við Tónlistarskóla Garðabæjar, en hann lýkur framhaldsprófi frá skólanum í vor.  Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson og á efnisskrá eru verk eftir  A. Marquez: Conga del Fuego Nuevo, Áskell Másson: Konsertþáttur fyrir litla trommu og hljómsveit, A. Dvorák: Sinfónía nr. 8 í G-dúr. Allir eru velkomnir á tónleikana og miðasala er við innganginn.

Sjá einnig upplýsingar um dagskrána vef Tónlistarskóla Garðabæjar, www.tongar.is og fésbókarsíðu skólans.