Harpa og Daníel eru íþróttamenn ársins 2014
Knattspyrnufólkið Harpa Þorsteinsdóttir og Daníel Laxdal úr Stjörnunni eru íþróttamenn Garðabæjar árið 2014. Tilkynnt var um kjör þeirra sunnudaginn 11. janúar sl. við hátíðlega athöfn í íþróttamiðstöðinni Ásgarði. Lið ársins 2014 er meistaraflokkur karla í knattspyrnu hjá Stjörnunni.
Sannkölluð hátíðardagskrá var í Ásgarði þar sem í upphafi var boðið upp á tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Garðabæjar og fimleikaatriði frá 9 og 10 ára fimleikastúlkum í Stjörnunni. Að því loknu tók við afhending viðurkenninga en alls voru veittar 391 viðurkenning í heildina. Þar af voru um 229 einstaklingar sem hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur, þ.e. hlutu Íslands-, bikar eða deildarmeistaratitla eða settu Íslandsmet. Alls hlutu 32 einstaklingar viðurkenningar fyrir landsliðsþátttöku og 43 einstaklingar hlutu viðurkenningar fyrir þátttöku með yngra landsliði. Einnig hlutu 18 einstaklingar viðurkenningar fyrir árangur á erlendum vettvangi, EM, NM eða sambærilegt. Við sama tilefni voru veittar viðurkenningar fyrir ,,framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs" og í ár voru það Erling Ásgeirsson og Jóhanna Aradóttir sem fengu þær viðurkenningar. Sjá frétt hér
Íþróttakona Garðabæjar 2014
Harpa Þorsteinsdóttir, knattspyrnukona Stjörnunni
Harpa er lykilleikmaður í sigursælu knattspyrnuliði Stjörnunnar. Hún átti stóran þátt í yfirburða sigrum liðsins á árinu 2014 og vann liðið meira og minna allt sem í boði var. Meistaraflokkur kvenna fagnaði Íslandsmeistaratitli, bikarmeistaratitli og Lengjubikarnum.
Harpa skoraði 27 mörk í 18 leikjum í Pepsideildinni og var langmarkahæsti leikmaðurinn í deildinni í sumar auk þess sem hún var valinn besti leikmaður deildarinnar annað árið í röð.
Harpa lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki Stjörnunnar árið 2002 þá 16 ára gömul. Hún hefur til dagsins í dag leikið 173 leiki með liðinu og skorað 129 mörk. Þá hefur hún leikið 46 A-landsleiki fyrir Ísland og skorað í þeim 8 mörk. Einnig hefur hún leikið 20 leiki með yngri landsliðum og skorað í þeim 5 mörk.
Harpa er frábær í hóp, laus við hroka eða yfirlæti, mjög reglusöm og ástundun óaðfinnanleg. Framkoma innan og utan vallar til algerrar fyrirmyndar.
Harpa er fremst meðal jafningja í frábæru liði. Mikill sigurvegari sem var í margföldu Íslandsmeistaraliði Stjörnunnar í 2. fl. kvenna á sínum tíma og hefur verið í öllum titilliðum mfl. kvenna (Íslandsmeistari 2011, bikarmeistari 2012, 2014, Íslandsmeistari 2013 og 2014 auk tveggja deildarbikarssigra og sigurs í Meistarakeppni KSÍ).
Íþróttakarl Garðabæjar
Daníel Laxdal, knattspyrnumaður Stjörnunni
Daníel Laxdal er Stjörnunni ómetanlegur. Í sumar lék Daníel líkt og oft áður lykilhlutverk í hjarta varnarinnar í einhverju mesta ævintýri sem íslenskt knattspyrnulið hefur upplifað í seinni tíð. Liðið varð Íslandsmeistari eftir að hafa ekki tapað einum einasta leik í Pepsídeildinni auk þess sem það komst í 4. umferð í Evrópukeppni UEFA þar sem liðið var slegið út af stórliðinu Inter Milan.
Daníel var valinn besti leikmaðurinn af þjálfurum liðsins auk þess að hann hlaut hæstu einkunn allra leikmanna Stjörnunnar fyrir tímabilið í einkunnagjöf Morgunblaðsins og Fréttablaðsins.
Daníel hefur alla tíð æft og keppt með Stjörnunni, hann hefur farið fyrir liðinu í gegnum súrt og sætt og ávallt gert allt sem í hans valdi stendur til þess að hjálpa félaginu að taka skref fram á við. Til marks um framlag hans í Stjörnunni var hann eini leikmaður liðsins sem spilaði alla leiki Stjörnunnar í sumar. Þá hefur Daníel spilað 63 leiki í röð í Pepsideildinni, sem er met, en hann missti síðast úr leik í maí 2012. Með dugnað, trú og eljusemi að vopni er Daníel sönn fyrirmynd allra þeirra sem stunda íþróttir og eru til í að fórna miklu til þess að láta drauma sína á vellinum rætast.
Lið ársins 2014
Stjarnan, meistaraflokkur karla í knattspyrnu - ásamt þjálfara sínum Rúnari Páli Sigmundssyni þjálfara ársins á Íslandi
Árangur síðasta keppnistímabils var einstakt í íslenskri knattspyrnusögu. Meistaraflokkur karla í knattspyrnu sýndi ótrúlegan árangur í Pepsi deild karla þegar liðið fór taplaust í gegnum mótið og hampaði Íslandsmeistaratitlinum í hreinum úrslitaleik í síðustu umferð á móti FH. Liðið sýndi einnig ótrúlegan styrk og karakter í Evrópudeildinni þegar liðið fór taplaust í gegnum þrjár umferðir og hafði betur gegn Bangor City, Motherwell og Lech Poznan. Í fyrsta skipti í sögu íslenskrar knattspyrnu komst íslenskt félagslið í fjórðu umferð Evrópudeildarinnar og þar mætti Stjarnan Inter Milan, sem sigraði Meistaradeild Evrópu árið 2010.
Áhrifin sem meistaraflokkur karla í knattspyrnu hafði á bæjarbrag Garðabæjar er algjört einsdæmi þar sem gleði, samkennd og stemning eru meðal fjölmargara lýsingaorða sem hægt er að nota. Það var sannkölluð þjóðhátíðarstemning á hverjum heimaleik meistaraflokks karla í knattspyrnu. Óhætt er að segja að karlalið Stjörnunnar hafi ekki eingöngu náð að snerta hjörtu allra Garðbæinga heldur einnig fjölmargra Íslendinga sem samglöddust velgegni liðsins.
Uppselt var á Samsungvöllinn leik eftir leik auk þess sem meira en 10.000 miðar seldust á leik Stjörnunnar og Inter Milan sem fram fór á Laugardalsvelli. Ekkert íslenskt félagslið hefur náð þeim árangri að fylla þjóðarleikvang Íslands.
Yfir 300 Garðbæingar fylgdu liðinu til Milano til að fylgjast með viðureign liðanna á San Siro. Nú rétt fyrir jólin var gefin út DVD diskur um þetta magnaða tímabil og er án efa ómetanleg eign í sögu Stjörnunnar og Garðabæjar.
Leikmannahópur Stjörnunnar eru sannkallaðar fyrirmyndir fyrir bæði börn og fullorðna þar sem leikgleðin, ástríðan fyrir íþróttinni og félaginu ráða för.