9. jan. 2015

Kynningarfundur um tillögu á lýsingu á aðalskipulagi Garðabæjar

Vinna við aðalskipulag Garðabæjar fyrir tímabilið 2016 - 2030 stendur nú yfir og verður fyrsta aðalskipulag hins sameinaða sveitarfélags Garðabæjar og Álftaness. Sérstakur kynningarfundur um lýsingu gerðar aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030 verður haldinn í Flataskóla miðvikudaginn 14. janúar 2015 og hefst hann klukkan 17:30. Þar verður lýsingin kynnt almenningi.
  • Séð yfir Garðabæ

Vinna við aðalskipulag Garðabæjar fyrir tímabilið 2016 - 2030 stendur nú yfir og verður fyrsta aðalskipulag hins sameinaða sveitarfélags Garðabæjar og Álftaness. Nýtt aðalskipulag mun leysa fyrri aðalskipulagsáætlanir úr gildi sem voru til fyrir bæði sveitarfélögin. 

Aðalskipulag er skilgreint í skipulagslögum. Þar segir að aðalskipulag sé skipulagsáætlun fyrir tiltekið sveitarfélag þar sem fram kemur stefna bæjarstjórnar um:

  • landnotkun
  • byggðaþróun
  • byggðamynstur
  • samgöngu- og þjónustukerfi og
  • umhverfismál

Samkvæmt lögunum skal fyrst vinna lýsingu á aðalskipulagsgerðinni þar sem fram kemur hvernig unnið verður að tillögunni, hverjar séu áherslur bæjarstjórnar, upplýsingar um fyrirliggjandi stefnu og fyrirhugað skipulagsferli svo sem um kynningu og samráð við íbúa og hagsmunaaðlila. Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti lýsingu aðalskipulagerðarinnar þann 4. desember 2014 og stendur kynning hennar nú yfir.

Íbúar hvattir til þátttöku - kynningarfundur í Flataskóla miðvikudag 14. janúar kl. 17:30

Sérstakur kynningarfundur um lýsingu á gerðar aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030 verður haldinn í Flataskóla miðvikudaginn  14. janúar 2015 og hefst hann klukkan 17:30. Þar verður lýsingin kynnt almenningi. Frestur til að koma með ábendingar vegna lýsingarinnar er til 17. febrúar nk.

Þegar lýsing á vinnuferlinu liggur fyrir hefst vinna við mótun sjálfrar tillögunnar. Á því stigi verður efnt til funda með íbúum og hagsmunaaðilum þar sem kallað verður eftir hugmyndum um innihald tillögunnar, lagt mat á ýmsa þætti sem áhrif hafa á mótun tillögunnar o.s.frv. 

Sjá einnig auglýsingu um tillögu að lýsingu á aðalskipulaginu þar sem hægt er að skoða lýsinguna í pdf-skjali.

Nánari upplýsingar um aðalskipulag í vinnslu.