12. des. 2014

Ráðherra heimsótti Hönnunarsafnið

Ragnheiður Elín Árnadóttir atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra heimsótti Hönnunarsafn Íslands á dögunum ásamt Helgu Haraldsdóttur skrifstofustjóra ráðuneytisins. Ragnheiður kom í boði stjórnar safnsins og leiddu Erling Ásgeirsson formaður stjórnar og Harpa Þórsdóttir forstöðumaður, ráðherrann um safnið.
  • Séð yfir Garðabæ

Ragnheiður Elín Árnadóttir atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra heimsótti Hönnunarsafn Íslands á dögunum ásamt Helgu Haraldsdóttur skrifstofustjóra ráðuneytisins. Ragnheiður kom í boði stjórnar safnsins og leiddu Erling Ásgeirsson formaður stjórnar og Harpa Þórsdóttir forstöðumaður, ráðherrann um safnið.  Ráðherra kynnti sér yfirstandandi sýningar og var sagt frá þeim fjölbreyttu verkefnum sem unnin eru á sviði menningarvarðveislu og rannsókna á íslenskri hönnunarsögu árið um kring í safninu. Ragnheiði var meðal annars boðið að skoða varðveislurými safnsins, en þar er að finna fjölda merkilegra húsgagna sem eru mikilvægur hluti iðnaðar- og hönnunarsögu okkar Íslendinga. Margt bar á góma í þessari heimsókn, ýmsar minningar voru rifjaðar upp þegar stólar og sófar af bernskuheimilum gestanna reyndust orðnir safngripir, hvað þá forláta Don Cano galli sem safnið fékk að gjöf fyrir nokkru og vakti mikla lukku gestanna.

Sjá einnig frétt á vef Hönnunarsafnsins.

Á myndinni eru frá vinstri: Kristín Björgvinsdóttir stjórnarmaður, Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra, Erling Ásgeirsson formaður stjórnar Hönnunarsafns Íslands,  Margrét Björk Svavarsdóttir forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, Harpa Þórsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands og Helga Haraldsdóttir skrifstofustjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.