20. nóv. 2014

Gagnlegar umræður á íbúafundi um fjárhagsáætlun

Um 40 manns, íbúar, embættismenn og bæjarfulltrúar, tóku þátt í umræðum um fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2015 á opnum íbúafundi sem fór fram fimmtudaginn 13. nóvember sl. í Sjálandsskóla.
  • Séð yfir Garðabæ

Um 40 manns, íbúar, embættismenn og bæjarfulltrúar,  tóku þátt í umræðum um fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2015 á opnum íbúafundi sem fór fram fimmtudaginn 13. nóvember sl. í Sjálandsskóla.   Bæjarstjóri Garðabæjar, Gunnar Einarsson, bauð gesti velkomna og stýrði fundinum sem jafnframt var sendur út á netinu í beinni útsendingu.

Í upphafi fundarins fór bæjarstjóri yfir helstu forsendur fjárhagsáætlunar næsta árs þar sem gert er ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars verði óbreytt eða 13,66%, álögum á íbúa verði stillt í hóf og að skuldahlutfall verði undir 100% í árslok 2015. Að því loknu fór Lúðvík Hjalti Jónsson, fjármálastjóri Garðabæjar, yfir helstu tillögur að fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2015 til fyrri umræðu.  Í lokin fór Auðunn Guðjónsson , endurskoðandi bæjarins frá KPMG, yfir helstu reglur um áætlanargerð sveitarfélaga, ábyrgð sveitarstjórnarmanna og afgreiðslu ársreikninga.  

Að kynningum loknum var unnið í minni hópum þar sem fundargestir gátu komið með tillögur og rætt um hvað mætti gera betur í rekstri bæjarins og hvaða áherslur menn vildu sjá í fjárhagsáætlun næsta árs.  Fundargestir skrifuðu niður tillögur sínar og hér á vef Garðabæjar er hægt að sjá þær ábendingar sem komu fram á fundinum.   Þeir íbúar sem komust ekki á fundinn geta áfram sent inn ábendingar um fjárhagsáætlun á netfang Garðabæjar, gardabaer@gardabaer.is

Tillögur / ábendingar / spurningar fundargesta, flokkað eftir málaflokkum í stafrófsröð (pdf-skjal).