14. nóv. 2014

Frábær skemmtun á Garðatorgi

Jóhann Sigurðarson, leikari og söngvari, steig á svið á Garðatorgi fimmtudagskvöldið 13. nóvember sl. Tónleikarnir voru á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar undir yfirskriftinni Tónlistarveisla í skammdeginu
  • Séð yfir Garðabæ

Jóhann Sigurðarson, leikari og söngvari, steig á svið á Garðatorgi fimmtudagskvöldið 13. nóvember sl.  Tónleikarnir voru á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar undir yfirskriftinni Tónlistarveisla í skammdeginu. Með Jóhanni þetta kvöld voru þeir Pálmi Sigurhjartarson sem lék á hljómborð, Ásgeir Óskarsson var á trommunum og Jón Rafnsson á bassa.  Saman fluttu þeir lög úr vinsælum söngleikjum, leikritum og kvikmyndum og Jóhann skemmti gestum eins og honum er einum lagið á milli laga.  Fjölmenni mætti á torgið til að hlýða á þá félaga og eiga góða kvöldstund.  Verslanir á torginu voru opnar í tilefni kvöldsins og nýttu margir tækifærið og kíktu þar við og einnig gátu gestir verslað góðar veitingar hjá Lionsmönnum og styrkt gott málefni í leiðinni. Að loknum tónleikum var Jóhanni og félögum fagnað vel og lengi.

Samhliða tónlistarveislunni opnaði félagið Gróska myndlistarsýningu í Gróskusalnum á Garðatorgi.  Sýningin ber yfirskriftina Gos og fjölmargir listamenn í Grósku eiga verk á sýningunni sem stendur fram til sunnudags 16. nóvember og verður opin frá kl. 14-18 um helgina. Þeir sem eiga leið á Garðatorgið á laugardag geta einnig skoðað listaverkamarkað Grósku sem verður opinn frá kl. 14-18 í göngugötunni.