7. nóv. 2014

Tónlistarveisla framundan

Tónlistarveisla í skammdeginu á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar verður haldin á ný fimmtudaginn 13. nóvember í göngugötunni á Garðatorgi. Í tónlistarveislu ársins er það Garðbæingurinn Jóhann Sigurðarson leikari og söngvari sem er í aðalhlutverki ásamt landsþekktum tónlistarmönnum.
  • Séð yfir Garðabæ

Tónlistarveisla í skammdeginu  á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar verður haldin á ný fimmtudaginn 13. nóvember í göngugötunni á Garðatorgi.   Í tónlistarveislu ársins er það Garðbæingurinn Jóhann Sigurðarson leikari og söngvari sem er í aðalhlutverki ásamt landsþekktum tónlistarmönnum.  Jóhann Sigurðarson flytur ásamt hljómsveit sinni lög úr vinsælum söngleikjum, leikritum, revíum og kvikmyndum og á milli laga verður spjallað á léttum nótum við tónleikagesti.  Með Jóhanni þetta kvöld verða þeir Pálmi Sigurhjartarson á hljómborð og harmonikku, Ásgeir Óskarsson Stuðmaður á trommur og slagverk, Guðmundur Jónsson úr Sálinni á gítar og Jón Rafnsson á bassa.

Kaffihúsastemning og myndlist

Þetta er í tólfta sinn sem tónlistarveislan er haldin á Garðatorgi og Garðbæingar sem og aðrir tónlistarunnendur hafa kunnað vel að meta og fjölmennt á torgið. Að venju verður reynt að skapa skemmtilega kaffihúsastemningu,  borðum og stólum raðað upp á torginu og gestir geta keypt sér veitingar sem Lionsmenn sjá um kl. 20.30 en tónleikarnir byrja klukkan 21 og standa í rúman klukkutíma. Á fimmtudagskvöldinu 13. nóvember geta gestir og gangandi einnig skoðað myndlist á Garðatorgi í Gróskusalnum.  Myndlistarmenn úr Grósku opna haustsýningu kl. 20 um kvöldið og sýningin verður opin fram eftir kvöldi fyrir tónleikagesti.
Aðgangur að tónlistarveislunni er ókeypis og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.