3. okt. 2014

Áfram Stjarnan!

Mikil stemning ríkir fyrir úrslitaleik Íslandsmeistaramótsins í knattspyrnu karla þar sem Stjarnan mætir FH í Kaplakrika laugardaginn 4. október kl. 16.
  • Séð yfir Garðabæ

Mikil stemning ríkir fyrir úrslitaleik Íslandsmeistaramótsins í knattspyrnu karla þar sem Stjarnan mætir FH í Kaplakrika laugardaginn 4. október kl. 16. Síðasta leikumferðin í Pepsi-deild karla fer fram á laugardaginn og vegna þeirra stöðu sem upp er komin þar sem um hreinan úrslitaleik er að ræða í lokaumferðinni þá hafa aðrir leikir verið flýttir til kl. 13:30 en leik Stjörnunnar og FH var seinkað til kl. 16.  Lið FH er með tveggja stiga forskot á Stjörnumenn og dugar því jafntefli til að ná titlinum en Stjörnumenn þurfa að vinna leikinn til að ná að landa bikarnum.  Ef Stjarnan vinnur þá verður liðið Íslandsmeistari í karlaflokki í fyrsta sinn í sögunni.  Óhætt er að segja að Stjörnumenn hafi staðið sig vel það sem af er sumri bæði á Íslandsmeistaramótinu og einnig þegar liðið tók í fyrsta sinn þátt í Evrópukeppninni og náði þar þeim einstaka árangri að vinna sex leiki og beið svo lægri hlut gegn stórliðinu Inter Milan.  Garðbæingar ætla sér að styðja vel við sína menn og það verður spennandi að fylgjast með leiknum í þessum nágrannaslag.  Áfram Stjarnan!

Sjá einnig vef Stjörnnunar, www.stjarnan.is og fésbókarsíðu knattspyrnudeildar Stjörnunnar fésbókarsíðu knattspyrnudeildar Stjörnunnar.

Fimm leikmenn úr kvennaliði Stjörnunnar í liði ársins

Kvennalið Stjörnunnar hefur staðið sig einstaklega vel á þessu sumri og liðið vann bæði Bikarmeistaratitilinn og Íslandsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu.  Í vikunni var tilkynnt um hvaða leikmenn sköruðu fram úr í Pepsi-deild kvenna og fimm leikmenn Stjörnunnar voru í liði ársins, þær Sandra Sigurðardóttir (markmaður), Glódís Perla Viggósdóttir (varnarmaður), Anna Björk Kristjánsdóttir (varnarmaður), Sigrún Ella Einarsdóttir (tengiliður) og Harpa Þorsteinsdóttir (framherji).  Auk þess var Harpa Þorsteinsdóttir valin leikmaður ársins og hún var einnig markahæst í sumar.  Sjá frétt á vef KSÍ, http://www.ksi.is/mot/nr/12146
Glæsilegur árangur hjá kvennaliði Stjörnunnar í sumar!