Skólahúsið á Bjarnastöðum 100 ára – hátíðardagskrá laugardaginn 4. október
Í tilefni aldarafmælis skólahússins á Bjarnastöðum á Álftanesi verður hátíðardagskrá haldin í hátíðarsal Íþróttahússins á Álftanesi laugardaginn 4. október n.k. kl. 14-16. Fyrri hluti dagskrárinnar nefnist: ,,Bessastaðir og Bjarnastaðaskólinn". Þar flytja frú Vigdís Finnbogadóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Pétur H. Ármannsson og Anna Ólafsdóttir Björnsson erindi. Fyrrverandi nemendur Bjarnastaðaskóla koma að seinni hluta dagskrárinnar: ,,Minningar frá Bjarnastöðum". Að lokinni dagskrá verður opið hús að Bjarnastöðum þar sem sýndar verða myndir og munir sem tengjast skólanum. Skipuleggjendur dagskrárinnar eru Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla, Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness í samstarfi við Garðabæ.
Skólahúsið á Bjarnastöðum
Skólahúsið á Bjarnastöðum var reist árið 1914. Þar er eitt þeirra skólahúsa sem fyrsti íslenski arkitektinn, Rögnvaldur Ólafsson, teiknaði ásamt aðstoðarmanni sínum, Einari Erlendssyni. Flest þeirra skólahúsa sem Rögnvaldur teiknaði eru nú horfin eða mikið breytt vegna viðbygginga. Skólahúsið á Bjarnastöðum er eitt af þeim fáu sem haldið hefur ytra útliti og formi í nokkurn veginn upprunalegri mynd. Fram til ársins 1978 var skólahald á Bjarnastöðum en Álftanesskóli tók til starfa um haustið það ár. Innréttingu gamla skólahússins var þá breytt til að koma mætti hreppsskrifstofu fyrir í húsinu. Skrifstofa sveitarfélagsins Álftaness var staðsett að Bjarnastöðum allt þar til sveitarfélagið sameinaðist Garðabæ.
Á síðustu mánuðum hefur verið unnið að viðhaldi innanhúss og gagngerum endurbótum utanhúss á Bjarnastöðum. Í framtíðinni er ætlunin að félög geti fengið aðstöðu að Bjarnastöðum til fundahalds o.fl. Húsið að Bjarnastöðum hefur um áratuga skeið gegnt margvíslegu hlutverki sem miðstöð skólastarfs, stjórnsýslu, félags- og menningarlífs Álftnesinga.
Dagskrá - laugardaginn 4. október kl. 14-16 í hátíðarsal íþróttahússins á Álftanesi