Síðasta sýningarhelgi á sýningunni Svona geri ég í Hönnunarsafninu
Helgina 4.-5. október nk. verða síðustu forvöð að skoða sýninguna Svona geri ég í Hönnunarsafni Íslands. Á sýningunni eru verk eftir grafíska hönnuðinn Hjalta Karlsson sem hlaut Torsten och Wanja Söderbergverðlaunin í nóvember á síðasta ári við hátíðlega athöfn í Gautaborg. Söderbergverðlaunin njóta mikillar virðingar og eru stærstu verðlaunin sem veitt eru norrænum hönnuði á hverju ári, að upphæð 1 milljón sænskra króna. Á sýningunni, sem kemur til Hönnunarsafnsins frá Röhsska, hönnunarsafni Svía í Gautaborg, eru sýnd verk sem Hjalti vann sérstaklega fyrir þessa sýningu. Einnig er þar til sýnis úrval hönnunar sem Hjalti hefur unnið frá því að hann útskrifaðist sem grafískur hönnuður árið 1992 og heimildamynd um Hjalta sem tekin var upp á síðasta ári.
Leiðsögn á sunnudaginn kl. 14
Sunnudaginn 5. október kl. 14 verður leiðsögn um sýninguna í fylgd Godds. Goddur nam myndlist í Reykjavík og seinna grafíska hönnun í Vancouver í Kanada. Hann hefur kennt grafíska hönnun frá 1993, fyrst í Myndlistaskólanum á Akureyri, svo í Myndlista- og handíðaskólanum og í Listaháskóla Íslands þar sem hann er prófessor í grafískri hönnun. Hann er án efa þekktasti málsvari grafískrar hönnunar á Íslandi. Goddur hefur skapað sér sérstöðu sem sérfræðingur í myndmálsnotkun og sögu grafískrar hönnunar.
Sjá einnig upplýsingar á
www.honnunarsafn.is