16. sep. 2014

Dagur íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur í dag þriðjudaginn 16. september. Í Garðabæ býður Náttúrufræðistofnun Íslands til hádegisgöngu kl. 12:15 um hraunið í nágrenni stofnunarinnar og umhverfisnefnd Garðabæjar býður til hjólaferðar kl. 16:30 frá ráðhúsinu á Garðatorgi. Einnig verður ganga um Norðurnes á Álftanesi kl. 18 og á sama tíma verður ganga í Búrfellsgjá.
  • Séð yfir Garðabæ

Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur í dag þriðjudaginn 16. september. Undanfarin ár hafa ýmsir aðilar, s.s. stofnanir, félagasamtök, sveitarfélög, skólar og fleiri haft daginn í huga með einum eða öðrum hætti í sinni starfsemi. Dagskrá tengd deginum verður haldin víðs vegar um landið og á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er hægt að sjá nánari upplýsingar um dagskrá á hverjum stað.  Að þessu sinni beinir umhverfis- og auðlindaráðuneytið athyglinni sérstaklega að mikilvægi þess að bera virðingu fyrir náttúrunni. Er hvatt til þess að tækifærið sé notað til að huga að umgengni um náttúruna; að hafa í heiðri einföld atriði s.s. að fara ekki út fyrir göngustíga á viðkvæmum svæðum, að hafa ekki á brott með sér náttúrugripi á borð við steina, egg eða gróður eða að skilja ekkert eftir úti í náttúrunni sem ekki á þar heima

Á höfuðborgarsvæðinu er fjölbreytt dagskrá í boði - sjá nánar hér á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Dagskrá í Garðabæ

Í Garðabæ býður Náttúrufræðistofnun Íslands til hádegisgöngu kl. 12:15 um hraunið í nágrenni stofnunarinnar undir leiðsögn Sigmundar Einarssonar jarðfræðings og Ásrúnar Elmarsdóttur plöntuvistfræðings. Mæting er við hús Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti. Áætlað er að gangan taki um 45 mínútur.  Sjá nánar hér.

Síðdegis í dag þriðjudag verður farið í hjólaferð frá ráðhúsi Garðabæjar á vegum umhverfisnefndar Garðabæjar. Hjólaferðin er haldin í tilefni af Samgönguviku sem hefst á Degi íslenskrar náttúru. Gunnar Einarsson bæjarstjóri hjólar um nýja- og hjóla- og göngustíga og kynnir fyrir íbúum skemmtilega hringleið um Garðahraun.  Lagt af stað frá ráðhúsinu á Garðatorgi kl. 16:30 og hjólaferðin endar einnig þar.  Sjá nánar hér.

Kl. 18 í dag býður Umhverfisstofnun til gönguferðar um Norðurnes á Álftanesi í Garðabæ. Tómas Knútsson, stofnandi Bláa hersins, leiðir gönguna og segir frá hreinsunarstarfi sínu við strendur landsins. Gengið verður um fjörur og fólk því hvatt til að vera í réttum fótabúnaði og klætt eftir veðri. Fjölskrúðugt fuglalíf er á þessum slóðum auk þess sem hægt er að tína fallegar skeljar í fjöruborðinu. Gangan er einnig upphitun fyrir alþjóðlega ráðstefnu sem Umhverfisstofnun stendur að um plast í hafinu í Hörpu þann 24. september nk. Ekið er beint fram hjá Bessastöðum og safnast saman við hestagirðinguna á Norðurnesi.

Á sama tíma eða kl. 18 verður einnig hægt að fara í göngu í Heiðmörk með Útivist og gönguklúbbnum Vesen og vergangur sem bjóða til göngu í og umhverfis Búrfellsgjá í Heiðmörk. Skoðaðar verða vegghleðslur og tóftir á svæðinu og farið yfir hvernig ferðamenn eiga að umgangast þau landsvæði sem þeir ganga um. Mæting og samansöfnun í bíla er á bílastæði við skóla Hjallastefnunar við Vífilsstaði í Garðabæ. Gera má ráð fyrir að gangan taki tvo til þrjá tíma og því verði farið að skyggja í lok göngu, því væri gott ef þátttakendur hefðu með sér ljós. Nánari upplýsingar.