2. sep. 2014

Skapandi vetur framundan í Klifinu

Nú er að hefjast fimmta starfsár Klifsins og í boði verður fjölbreytt úrval af námskeiðum. Klifið hefur fengið mjög góðar móttökur frá Garðbæingum á undanförnum árum.
  • Séð yfir Garðabæ

Í september hefst fimmta starfsár Klifsins skapandi fræðsluseturs. Námskeiðsflóran er fjölbreytt og spannar tæplega 50 tómstundanámskeið fyrir börn og unglinga. Einnig eru í boði nokkur fagnámskeið fyrir skólafólk. Meðal nýjunga í haust eru Listdansskóli, hreyfimyndagerð, uppfinninganámskeið, sjálfsstyrkingarnámskeið, söngnámskeið og raftónlistarnámskeið. Söngkennsla verður í boði í fyrsta skipti, bæði sem söngnámskeið og þar sem söng og lífsgildum er blandað saman í námskeiðinu Gleym mér ei.

Bryn Listdansskóli Garðabæjar tekur til starfa en um er að ræða samstarf við Bryn Ballett Akademíuna á Ásbrú. Bryndís Einarsdóttir verður skólastjóri Listdansskólans. Klifið tekur einnig þátt í samstarfi við Guðmund Elías Knudsen og Listaháskóla Íslands með þróun hreyfismiðju fyrir unglingsstráka með ADHD.

Tækni- og vísindi verða á sínum stað í vetur og áfram verður haldið með Litla uppfinningaskólann, frá því í sumar. Einnig verður grúskað í vísindum og jarðfræði, eðlisfræði og himingeimurinn skoðaður með Sævari Helga Bragasyni, en hann hlaut verðlaunin framúrskarandi ungir Íslendingar nú í sumar.

Leiðbeinendur á námskeiðum Klifsins eru flestir sjálfstætt starfandi listamenn og sérfræðingar og hafa margir þeirra starfað í mörg ár.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Klifsins, klifid.is