Opið hús í Króki sunnudaginn 31. ágúst
Sunnudaginn 31. ágúst eru síðustu forvöð í sumar að skoða bæinn Krók á Garðaholti. Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Í Króki eru varðveitt gömul húsgögn og munir sem voru í eigu hjónanna Þorbjargar Stefaníu Guðjónsdóttur og Vilmundar Gíslasonar. Þorbjörg flutti í Krók vorið 1934 og bjó í Króki til ársins 1985.
Krókur er staðsettur á Garðaholti rétt hjá samkomuhúsinu og stutt frá Garðakirkju, nánar tiltekið á gatnamótum Garðavegar og Garðaholtsvegar. Bærinn hefur verið opinn alla sunnudaga í sumar og verður opinn sunnudaginn 31. ágúst frá kl. 13-17. Þá er jafnframt síðasti dagur sýningar á málverkum Rúnu K. Tetzschner og þæfðum ullarverkum Kömmu Níelsdóttur í hlöðunni við Krók. Sýningin nefnist Náttúruævintýri í Krókshlöðunni og þær mæðgur Rúna og Kamma segja frá sýningunni og bjóða upp á kaffi og klatta. Rúna hefur jafnframt starfað sem safnvörður í Króki í sumar og veitir leiðsögn um bæinn á sunnudaginn. Aðgangur að Króki er ókeypis og allir eru velkomnir á opna húsið næsta sunnudag.
Vinnuaðstaða fyrir listamann í Króki
Í Króki er einnig herbergi sem hefur verið nýtt sem vinnuaðstaða fyrir listamenn og nýverið var auglýst eftir umsóknum listamanna/fræðimanna um afnot af vinnuaðstöðunni. Vinnuaðstaðan er í boði 1-3 mánuði í senn veturinn 2014-2015 sjá nánari upplýsingar hér.