27. ágú. 2014

Öflugt starf áfram á afmælisári Tónlistarskólans

Tónlistarskóli Garðabæjar hóf starfsár sitt á ný í lok ágúst og að venju er fjölbreytt starfsemi framundan í skólastarfinu. Um 520 nemendur stunda nám við Tónlistarskóla Garðabæjar og kennarar eru 47 talsins. Meðal nýjunga hjá skólanum í haust er tilraunaverkefnið „rytmísk hringekja“ í samstarfi við Garðaskóla. Í vetur verður einnig boðið upp á skemmtilegt nám í sérstakri söngsmiðju fyrir 9-12 ára nemendur.
  • Séð yfir Garðabæ

Tónlistarskóli Garðabæjar hóf starfsár sitt á ný í lok ágúst og að venju er fjölbreytt starfsemi framundan í skólastarfinu.  Í ár hefur skólinn haldið upp á 50 ára afmæli skólans með margvíslegum uppákomum og ber þar helst að nefna vel heppnaða hátíðartónleika skólans í maí síðast liðnum.  Um 520 nemendur stunda nám við Tónlistarskóla Garðabæjar og kennarar eru 47 talsins.  Skólastjóri skólans er Laufey Ólafsdóttir.

,,Rytmísk hringekja“ í samstarfi við Garðaskóla

Meðal nýjunga hjá skólanum í haust er tilraunaverkefnið  „rytmísk hringekja“ í samstarfi við Garðaskóla. Hringekjan verður valgrein í stundaskrá Garðaskóla og kennt verður í tónlistarstofu skólans.  Fjórir kennarar frá Tónlistarskólanum munu kenna þátttakendum í hringekjunni á rafgítar, rafbassa, hljómborð og trommur/slagverk.  Kennt er á hvert hljóðfæri í um 8 vikur og í lokin eru myndaðar hljómsveitir og spiluð lög í samræmi við getu hvers hóps. Umsjónarmaður ,,rytmísku hringekjunnar“ er Ómar Guðjónsson deildarstjóri í Tónlistarskólanum.  Nemendur úr 9. og 10. bekk Garðaskóla gátu sótt um að vera með og ekki var nauðsynlegt að kunna á hljóðfæri.  Samtals eru það 10 nemendur sem taka þátt og áhugavert verður að sjá hvernig til tekst.

Skráning í söngsmiðju 9-12 ára enn í gangi

Í vetur verður einnig boðið upp á skemmtilegt nám í sérstakri söngsmiðju fyrir 9-12 ára nemendur.  Nemendurnir sækja hóptíma einu sinni í viku og einnig söngtíma þar sem eru þrír nemendur saman, auk þess að fara í tónfræðitíma.  Í söngsmiðjunni fá þau að læra eðlilega og áreynslulausa raddbeitingu auk þess að syngja í röddum.  Unnið verður með íslensk sönglög, dægurperlur og söngleikjalög.  Einnig verður farið í leikræna tjáningu og túlkun með skemmtilegum og örvandi leiklistaræfingum.  Umsjónarmenn og kennarar söngsmiðjunnar eru þær Guðrún Jóhanna Jónsdóttir, söng- og píanókennari og Þóra Björnsdóttir, söng- og tónfræðikennari.  Skráning fer fram í umsóknareyðublaði á vef Tónlistarskólans.

Upplýsingar um starfsemi skólans

Á vef Tónlistarskóla Garðabæjar, www.tongar.is, er hægt að nálgast upplýsingar um starfsemi skólans, þar eru birtar fréttir úr starfinu og hægt að sjá upplýsingar um tónleika í skólanum hverju sinni.  Einnig heldur skólinn úti skemmtilegri fésbókarsíðu fyrir þá sem vilja fylgjast með skólanum þar.