31. júl. 2014

Ungmenni úr sumarátaki ánægð með vinnu á Ísafold

Í sumar fengu starfsfólk og íbúar á Ísafold liðs við sig 3 starfsmenn sem eru í sumarátaki Garðabæjar fyrir ungt fólk.
  • Séð yfir Garðabæ

Í sumar fengu starfsfólk og íbúar á Ísafold liðs við sig 3 starfsmenn sem eru í sumarátaki Garðabæjar fyrir ungt fólk.  Í þeim hópi eru þau Hörður Fannar Þórsson, Íris Hafþórsdóttir og Sigurjón Daði Sigurðsson. Í viðtali sem birtist við sumarstarfsfólkið á vef Ísafoldar kemur fram að þeim fannst vinnan ánægjuleg og sagði Hörður að vinnan hafi verið þægileg og andrúmsloft gott og Sigurjón talaði um að sér hafi fundist gaman að vera í kringum heimilisfólk og dagdvalargesti. Íris tók undir það og sagði að það hafi verið rosalega gaman í sumar, þetta sé mjög gefandi vinna og hún finni hvað verið sé að gera mikið gagn, jafnvel bara með nærveru.

Fjölbreytt verkefni sumarstarfsfólks

Verkefni þeirra á Ísafold hafa verið fjölbreytt í sumar. ,,Við höfum verið að aðstoða í sjúkraþjálfun og dagdvöl, verið með gönguhópa, upplestra og aðstoðað í bingó og boccia“ segir Hörður. ,,Við höfum líka unnið ýmis verk eins og uppvask og frágang, fara með rusl, aðstoða við verkefni sem tengjast húsnæðinu, garðvinnu og fleira“ bætir Sigurjón við. Íris segir frá því að þau hafi verið að kynna nýju I-Padana fyrir heimilisfólki og dagdvalargestum og sýna hvaða möguleika þeir bjóða upp á. Þegar þau eru spurð hvað hafi verið skemmtilegast eru Sigurjón og Hörður sammála um að það hafi verið gönguhóparnir. ,,Fólk var svo ánægt með þá. Það er góð tilbreyting að fara út þrátt fyrir veðrið“ segir Hörður.  Írisi fannst saumaklúbbarnir standa upp úr.

Hef lært að kvíða ekki ellinni

Þremenningarnir eru sammála um að þetta hafi verið lærdómsríkur tími. ,,Ég hef lært að ég þarf alls ekki að kvíða ellinni“ segir Íris og er þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri, það hafi hjálpað henni að tala við fólkið. ,,Eins mikið og ég hef kannski gefið þeim, þá hafa þau gefið mér rosalega mikið í staðinn“. ,,Ég hef lært að vaska upp“ segir Sigurjón og brosir, ,,og ýmis önnur verkefni“ bætir hann við. Hörður segist hafa lært margt af því að hlusta á íbúa og dagdvalargesti: ,,Ég lærði ýmislegt á því að heyra fólkið tala um lífið.“  Öll mæla þau með sumarstarfi á Ísafold: ,,Algjörlega, þetta er mjög gott starf. Þetta er líka öðruvísi“, segir Hörður. ,,Við mælum hiklaust með því“ segir Íris.