23. júl. 2014

Bökuðu klatta til að gleðja aðra

Börn og starfsfólk á Náttúruleikskólanum Krakkakoti á Álftanesi hafa nýtt þessa viku til að gleðja aðra sem starfa hjá Garðabæ á Álftanesi. Í sameiningu bökuðu þau gómsæta heilsuklatta sem þau hafa gefið starfsfólki á öðrum vinnustöðum á Álftanesi til að gæða sér á með kaffinu.
  • Séð yfir Garðabæ

Börn og starfsfólk á Náttúruleikskólanum Krakkakoti á Álftanesi hafa nýtt þessa viku til að gleðja aðra sem starfa hjá Garðabæ á Álftanesi. Í sameiningu bökuðu þau gómsæta heilsuklatta sem þau hafa gefið starfsfólki á öðrum vinnustöðum á Álftanesi til að gæða sér á með kaffinu.

Starfsfólk á bæjarskrifstofum Garðabæjar var líka svo heppið að fá sendingu frá Krakkakoti. Hjördís Ólafsdóttir leikskólastjóri kom færandi hendi og sagðist hafa frétt af því að matráðskonan á bæjarskrifstofunum væri í sumarfríi og því ákveðið að leyfa starfsfólki þar að njóta líka. Klattarnir voru afskaplega vel þegnir og fljótir að hverfa ofan í starfsfólkið á skrifstofunum sem kann öllum á Krakkakoti bestu þakkir fyrir.

Á pokanum sem klattarnir komu í eru prentaðar tvær vísur um vináttuna enda fylgdu sendingunni sérstakar vinakveðjur frá Krakkakoti.

Vísurnar eru þannig:

Gulli og perlum að safna sér,
sumir endalaust reyna.
Vita ekki að vináttan er,
verðmætust eðalsteina.

Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina.
En viltu muna að vináttan er
verðmætust eðalsteina.

Höfundur: Hjálmar Freysteinsson