13. jún. 2014

Hraðhleðsla fyrir rafbíla komin í Garðabæ

Ökumenn rafbíla geta nú sótt sér áfyllingu á bílinn á nýrri hraðhleðslustöð sem Orka náttúrunnar (ON) hefur sett upp í samstarfi við IKEA í Garðabæ samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum. Þetta er sjötta stöðin af tíu sem ON opnar á Suður- og Vesturlandi.
  • Séð yfir Garðabæ

Ökumenn rafbíla geta nú sótt sér áfyllingu á bílinn á nýrri hraðhleðslustöð sem Orka náttúrunnar (ON) hefur sett upp í samstarfi við IKEA í Garðabæ samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum. Þetta er sjötta stöðin af tíu sem ON opnar á Suður- og Vesturlandi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung við Miklubraut og á Fitjum í Reykjanesbæ.

IKEA tekur verndun umhverfis og náttúru alvarlega og vill því taka þátt í þeirri nauðsynlegu þróun að jarðarbúar temji sér sjálfbærari lífsvenjur.  Hleðslustöðin er öllum gestum IKEA gjaldfrjáls og vonast er til að hún nýtist gestum vel.

Tíu nýir rafbílar á mánuði

Frá áramótum hafa í hverjum mánuði bæst tíu rafbílar að jafnaði við bílaflota Íslendinga. Fjölbreytni í framboði rafbíla hefur líka aukist verulega síðustu mánuði. Rekstur rafbíla sparar bæði peninga og útblástur. Á vef Orkuseturs er að finna reiknivél þar sem hægt er að bera saman orkukostnað rafbíla og annarra og hversu miklu minni útblástur gróðurhúsalofttegunda er við akstur þeirra en hefðbundinna bifreiða.
Flestir rafbílaeigendur hlaða bíla sína heima við eða á vinnustað. Til að stuðla að öruggum frágangi hleðslubúnaðar hefur Mannvirkjastofnun gefið út fræðslurit um hleðslu rafbíla og raflagnir.
Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur. Þetta er tilraunaverkefni til tveggja ára og á meðan tilrauninni stendur verður hleðslan á stöðvunum gjaldfrjáls.

Um Orku náttúrunnar ohf.

Orka náttúrunnar framleiðir og selur rafmagn til heimila og fyrirtækja um allt land og rekur fjórar virkjanir; jarðvarmavirkjanirnar á Hellisheiði og Nesjavöllum og vatnsaflsvirkjanirnar í Andakílsá og Elliðaám. Auk rafmagnsframleiðslu framleiða jarðvarmavirkjanirnar heitt vatn fyrir hitaveituna. Orka náttúrunnar er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.
 

Ljósmynd frá opnun stöðvarinnar í morgun. Frá vinstri : Ásdís Gíslason, markaðsstjóri ON, Guðný Camilla Aradóttir, markaðsfulltrúi og ábyrgðarmaður umhverfismála hjá IKEA, og Kristín Lind Steingrímsdóttir, markaðsstjóri IKEA.