11. júl. 2014

Góður afrakstur sumarátaksins

Unga fólkið sem tekur þátt í verkefninu "sumarátak ungs fólks" í bænum hefur komið miklu í verk í sumar við að fegra bæjarlandið.
  • Séð yfir Garðabæ

Unga fólkið sem tekur þátt í verkefninu "sumarátak ungs fólks" í bænum hefur komið miklu í verk í sumar við að fegra bæjarlandið. Unga fólkið hóf störf 2. júní í tíu vinnuhópum með flokkstjórum, en Atli Guðjónsson stýrir verkefninu í umsjón umhverfisstjóra. Sumarátakið er ætlað ungmennum 17 ára og eldri.

Bæjarlandinu skipt á milli deilda

Við undirbúning á störfum sumarfólks var bæjarlandinu skipt á milli deilda sem annast umhirðu á opnum svæðum og stofnanalóðum, þ.e. á milli garðyrkjudeildar, vinnuskólans og sumarátaksins. Þessi tilhögun er nýbreytni. Vinnuskólinn tók að sér umhirðu á Flatahverfi og  vestursvæði bæjarins að meðtöldu Álftanesi, með rakstri og umhirðu beða, garðyrkjudeildin ber ábyrgð á miðbæjarsvæðinu niður að Arnarneslæk auk þess sem hún sér um að gróðursetja sumarblóm. Að lokum tók sumarátakið að sér hverfin Sjáland, Arnarnes og austurbæ suður í Kauptún og útmörk.

Mörg verkefni sumarátaksins

Starfsmenn í sumarátakinu hafa rakað og hirt grassvæði sem eru fyrst og fremst manir, á sínum svæðum. Þeir hafa líka hreinsað illgresi úr gróðurbeðum og yfirlagt þau með viðarkurli eða sandi svo arfinn vaxi ekki strax aftur. Mikil vinna hefur verið lögð í að bæta ásýnd gróðurbeðanna. Grasið hefur vaxið sem aldrei fyrr í votviðrinu sem af er sumri. Hóparnir hafa einnig tekist á við stærri verkefni svo sem frágang meðfram nýjum göngustíg ofan Bæjargils og frágang á opnu svæði á mönum milli Kirkjubrekku og Suðurnesvegar með tyrfingu og sáningu grasfræs.

Þrír vinnuhópar í ágúst

Nauðsynlegt er að halda umhirðu áfram í ágúst enda sprettur gras og illgresi fram til sumarloka. Bæjarráð hefur því samþykkt tillögu umhverfisstjóra um að starfslok 17 ára ungmenna sem fædd eru árið 1997 færist til 25. júlí, í stað 18. júlí sem er framlenging um eina viku. Einnig verður hluta eldri ungmenna,  fædd 1996 og fyrr, boðin áframhaldandi vinna til 15. ágúst. Reiknað er með að þrír vinnuhópar verði starfræktir í ágúst og verður þeim boðin vinna sem hafa staðið sig vel í sumar.

Fleiri myndir eru á facebook síðu Garðabæjar