Íslenski safnadagurinn - dagskrá í Garðabæ
Íslenski safnadagurinn verður haldinn hátíðlegur sunnudaginn 13. júlí nk. Markmiðið með deginum er að benda á mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar sameiginlegra verðmæta þjóðarinnar og þá einstöku leið til lifandi þekkingaröflunar og skemmtunar sem finna má á söfnum.
Leiðsögn í Hönnunarsafni Íslands kl. 14
Í tilefni dagsins verður ókeypis aðgangur í Hönnunarsafni Íslands þennan dag og boðið upp á leiðsögn Ástríðar Magnúsdóttur um sýninguna Ertu tilbúin frú forseti? kl. 14 sunnudaginn 13. júlí.
Ástríður, dóttir Vigdísar Finnbogadóttur var sjö ára gömul þegar móðir hennar var kosin forseti þjóðarinnar. Það að kona væri kjörin forseti í lýðræðislegum kosningum var tímamótaviðburður í heimssögunni. Ástríður mun ganga um sýninguna með það að leiðarljósi og rifja upp sögur og minningar sem tengjast fatnaði og fylgihlutum sem eru til sýnis frá ferli móður sinnar.
Auk sýningarinnar á fatnaði og fylgihlutum frú Vigdísar Finnbogadóttur er sýning á grafískri hönnun Hjalta Karlssonar, en Hjalti býr í New York og rekur þar hönnunarstúdóið Karlssonwilker. Hönnunarsafn Íslands er staðsett að Garðatorgi 1 í Garðabæ og nánari upplýsingar um safnið má finna á vefsíðu safnsins, www.honnunarsafn.is
Opið hús í Króki á Garðaholti frá 13-17
Á íslenska safnadaginn sunnudaginn 13. júlí verður opið hús í Króki frá kl. 13-17. Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Í Króki eru varðveitt gömul húsgögn og munir sem voru í eigu hjónanna Þorbjargar Stefaníu Guðjónsdóttur og Vilmundar Gíslasonar. Þorbjörg flutti í Krók vorið 1934 og bjó í Króki til ársins 1985. Undanfarin ár hefur verið opið að sumri til í Króki fyrir almenning og skólahópar jafnt sem aðrir hópar hafa heimsótt bæinn yfir vetrartímann.
Krókur er staðsettur ská á móti samkomuhúsinu og stutt frá Garðakirkju, nánar tiltekið á gatnamótum Garðavegar og Garðaholtsvegar. Bílastæði eru hjá samkomuhúsinu á Garðaholti. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir í heimsókn. Krókur er opinn alla sunnudaga í sumar.