27. jún. 2014

Viðurkenning fyrir ötult starf í þágu Garðabæjar

Rotarýklúbburinn Görðum afhenti nýlega Erlu Bil Bjarnardóttur, umhverfisstjóra Garðabæjar, Garðasteininn, sem viðurkenningu fyrir starf hennar að skógræktarmálum í Garðabæ undanfarin ár.
  • Séð yfir Garðabæ

Rotarýklúbburinn Görðum afhenti nýlega Erlu Bil Bjarnardóttur, umhverfisstjóra Garðabæjar, Garðasteininn, sem viðurkenningu fyrir starf hennar að skógræktarmálum í Garðabæ undanfarin ár. 
 
Rótarýklúbburinn hefur undanfarin fjögur ár afhent Garðastein aðila sem hefur sýnt framúrskarandi störf í þágu bæjarins. Steinninn er hannaður af Manfred Vilhjálmssyni arkitekt og er með áritaðri plötu með nafni þess sem hlýtur hann.

Við afhendingu viðurkenningarinnar lagði Sigrún Gísladóttir, formaður klúbbsins, áherslu á það mikla starf sem Erla Bil hefur unnið sem formaður Skógræktarfélags Garðabæjar sl. 25 ár og sagði ásýnd bæjarins bera því starfi gott vitni. Sigrún nefndi einnig starf Erlu Biljar að fræðslumálum til grunnskólabarna um umhverfismál.

Á myndinni er Erla Bil lengst til hægri ásamt Júlíu Ingvarsdóttur, formanni umhverfisnefndar Garðabæjar 2010-2014 og Gunnari Einarssyni bæjarstjóra við afhjúpun hringsjár á Smalaholti í lok maí.

Samstarfsfólk Erlu Biljar hjá Garðabæ óskar henni til hamingju með viðurkenninguna.