27. jún. 2014

Grafísk hönnun í Hönnunarsafninu

Sýning á verkum grafíska hönnuðarins Hjalta Karlssonar var opnuð fyrr í þessum mánuði í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg. Hjalti rekur hönnunarfyrirtæki í New York og hlaut nýlega virt norræn verðlaun fyrir hönnun sína
  • Séð yfir Garðabæ

Sýning á verkum grafíska hönnuðarins Hjalta Karlssonar var opnuð fyrr í þessum mánuði í Hönnunarsafni Íslands við Garðatorg. Hjalti hlaut Torsten och Wanja Söderbergverðlaunin í nóvember á síðasta ári við hátíðlega athöfn í Gautaborg. Söderbergverðlaunin njóta mikillar virðingar og eru stærstu verðlaunin sem veitt eru norrænum hönnuði á hverju ári, að upphæð 1 milljón sænskra króna.

Hjalti rekur hönnunarfyrirtækið KarlssonWilker í New York en það á viðskiptavini um allan heim. Í umsögn dómnefndar Söderbergverðlaunanna segir: „Breið nálgun Hjalta Karlssonar á leturgerð, grafískri hönnun og sjónrænum samskiptum byggir á húmanískum og listrænum grundvelli. Verk hans spanna allt frá smáhlutum til heildstæðrar, umfangsmikillar grafískrar upplýsingamiðlunar. Frá tímaritssíðum til hreyfimynda, frá hönnun sýninga með fræðslugildi yfir í staðbundnar listinnsetningar – sjónrænt tungumál Hjalta Karlssonar í samtíma er markað bæði af klassískri menntun og íslenskri sagnahefð.“

Á sýningunni, sem kom til Hönnunarsafnsins frá Röhsska, hönnunarsafni Svía í Gautaborg, eru meðal annars sýnd verk sem Hjalti vann sérstaklega fyrir þessa sýningu. Einnig er þar úrval hönnunar sem Hjalti hefur unnið frá því að hann útskrifaðist sem grafískur hönnuður árið 1992 og heimildamynd um Hjalta sem tekin var upp á síðasta ári. 

Nánar á vef Hönnunarsafns Íslands