5. jún. 2014

Skemmtilegt skólamót í minitennis

Fyrsta skólamót Garðabæjar í mini tennis var haldið á vegum Tennisfélags Garðabæjar (TFG) og Tennishallarinnar sunnudaginn 1. júní sl. Þátttaka var mjög góð og tennislið frá Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla, Alþjóðaskólanum og Flataskóla mættu til leiks.
  • Séð yfir Garðabæ

Fyrsta skólamót Garðabæjar í mini tennis var haldið á vegum Tennisfélags Garðabæjar (TFG) og Tennishallarinnar sunnudaginn 1. júní sl. í Tennishöllinni í Kópavogi. Þátttaka var mjög góð og tennislið frá Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla, Alþjóðaskólanum og Flataskóla mættu til leiks. Mótið var fyrir nemendur úr 4. og 5. bekk.

Lið Hofsstaðaskóla sigraði í skólakeppninni og fékk afhentan farandbikar frá Tennisfélagi Garðabæjar. Einnig voru veitt verðlaun fyrir besta einstaklingsárangur og í fyrsta sæti var Tómas Andri Ólafsson úr Flataskóla, Sebastian Fryberger úr Sjálandsskóla var í öðru sæti og í þriðja sæti var Jakob Máni Magnusson úr Hofsstaðaskóla. Í hléi var boðið upp á pylsur og einnig gátu nemendur skemmt sér í hoppukastala og togbraut og í lokin var farið í skemmtilega tennisleiki með foreldrum. Tennisfélag Garðabæjar og tennishöllin þakka öllum börnunum fyrir þátttöku og góða frammistöðu á skólamótinu og óska sigurvegurunum til hamingju með árangurinn.

Samstarfssamningur við Tennisfélag Garðabæjar

Í lok maí var undirrituðu Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Eyþór Rafn Þórhallsson, formaður stjórnar TFG, samstarfssamning Garðabæjar og TFG. Tilgangur samningsins er að efla barna- og unglingastarf í tennis innan Garðabæjr með markvissu starfi TFG á félagssvæði sínu. Garðabær styrkir starfið með árlegum rekstrarstyrk, styrk vegan þjálfunar barna- og unglinga og húsnæðisstyrk í Garðabæ í íþróttahúsum bæjarins. TFG skuldbindur sig til að standa að tennisþjálfun barna og ungmenna með faglegum hætti og uppfylla skilyrði reglna til að teljast fyrirmyndarfélag ÍSÍ.

Tennisfélag Garðabæjar (TFG) og Tennisdeild UMFÁ sameinast

TFG var stofnað þann 4. desember 2008 og stunda félagsmenn æfingar í Tennishöllinni að Dalsmára, Kópavogi, í samstarfi við Tennisfélag Kópavogs (TFK) og Badmintonfélag Hafnarfjarðar (BH).
Við sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Álftaness í janúar 2013 ákváðu Tennisfélag Garðabæjar (TFG) og Tennisdeild UMFÁ að taka höndum saman að því að efla barna- og unglingastarf innan félagssvæðisins. Luigi Bartolozzi í Tennisdeild UMFÁ tók sæti í stjórn TFG í apríl 2013 en hann hafði um langt skeið starfað að uppbyggingu tennisíþróttarinnar á Álftanesi.
Í byrjun árs 2014 stóð TFG fyrir skólakynningum á mini tennis fyrir 3., 4. og 5. bekki allra grunnskóla Garðabæjar og Álftaness í samvinnu við Tennisdeild UMFÁ. TFG skipulagði einnig mini tennis námskeið í Ásgarði í janúar – maí 2014 fyrir sama aldursflokk.

Félögin vænta þess að með því að sameina félögin muni þau stuðla enn frekar að uppbyggingu tennis íþróttarinnar í Garðabæ á komandi árum. Eyþór Rafn Þórhallsson, Luigi Bartolozzi, Þórunn Bergsdóttir og Davíð Ármann Eyþórsson skipa stjórn félagsins starfsárið 2014-2015.
Samninginn undirrituðu Björgvin Júníusson framkvæmdastjóri UMFÁ og Eyþór Rafn Þórhallsson formaður TFG. Samningurinn gildir frá og með 1. júní 2014 og hið sameinaða félag heitir Tennisfélag Garðabæjar (TFG).