9. apr. 2014

Góð umræða á málþingi um farsæl efri ár í Garðabæ

Hátt í 60 manns tóku þátt í málþingi um farsæl efri ár í Garðabæ sem haldið var í Sjálandsskóla 8. apríl. Góðar umræður sköpuðust og margar góðar hugmyndir komu fram
  • Séð yfir Garðabæ

Góðar umræður sköpuðust á málþingi um farsæl efri ár í Garðabæ, sem haldið var í Sjálandsskóla 8. apríl. Hátt í 60 manns tóku þátt í þinginu. Setið var við átta borð og stýrði borðstjóri umræðunum á hverju borði þar sem tekist var á við spurningar um hvernig hægt sé að stuðla að því að efri árin verði farsæl.

Náttúran og gönguleiðir

Fyrsta spurningin sem þátttakendur svöruðu var: "Hvað er gott við að eldast í Garðabæ?" Eftir að þátttakendur höfðu velt þessari spurningu fyrir sér við borðin kom fulltrúi hvers borðs upp og sagði frá því sem fólk taldi mikilvægast. Nokkuð samhljómur var í svörunum og kom gott aðgengi að náttúru og gönguleiðum, öflugt félagsstarf og gott samfélag fram í máli fulltrúa allra borðanna. Einnig kom fram ánægja með íþróttastarf og þjónustu Bókasafns Garðabæjar.

Krá, vínbúð og bókakaffi

Næst var tekist á við spurninguna um hvernig Garðabær gæti stuðlað að farsælum efri árum. Þar kom m.a. fram að fólk vill sjá félagsstarfið eflast enn frekar, það vill hafa gott aðgengi að heimaþjónustu og að unnið verði að því að rjúfa félagslega einangrun. Einnig komu fram ábendingar um að það vantaði krá í bæinn, vínbúð og bókakaffi svo eitthvað sé nefnt.

Frumkvæði Félags eldri borgara

Í síðustu umferðinni var málaflokkum skipt á milli borða. Þátttakendur á tveimur borðum veltu fyrir sér hugtakinu búsetulífsgæðum og hvernig megi stuðla að þeim í Garðabæ, næstu tvö ræddu um heilsutengd lífsgæði og þau sem eftir voru fjölluðu annars vegar um tómstundir og námskeið og hins vegar um þátttöku og virkni.

Málþingið var haldið að frumkvæði Félags eldri borgara í Garðabæ í samstarfi við Félag eldri borgara á Álftanesi og Garðabæ. Ingrid Kuhlman frá fyrirtækinu Þekkingarmiðlun stýrði þinginu og mun taka saman skýrslu um niðurstöður þess sem aðstandendur þingsins ætla að afhenda bæjarstjóra Garðabæjar til eftirfylgni. Skýrslan verður einnig birt hér á vef Garðabæjar.

Öllum þátttakendum á þinginu er þakkað kærlega fyrir sitt framlag.

Fleiri myndir frá þinginu eru á facebook síðu Garðabæjar