7. apr. 2014

Temdu þér taupoka

Næstu daga verður umhverfisvænum burðarpokum úr taui dreift á öll heimili í Garðabæ. Með því vill umhverfisnefnd taka enn eitt skrefið að umhverfisvænum bæ með aðstoð bæjarbúa.
  • Séð yfir Garðabæ

Næstu daga verður umhverfisvænum burðarpokum úr taui dreift á öll heimili í Garðabæ. Með því vill umhverfisnefnd taka enn eitt skrefið að umhverfisvænum bæ með aðstoð bæjarbúa.

Af hverju taupokar?

Plastpokar undir mat og önnur innkaup geta verið handhægir en þegar þeir lenda úti í náttúrunni eru þeir til mikilla óþurfta. Pokarnir fjúka um og geta haft eiturverkanir þegar þeir brotna niður. Talsvert af plastpokum berst til sjávar og lendir í fjörum. Fjöldi sjófugla og sjávarspendýra drepst eftir að hafa étið plast og dýr geta flækst í plastinu. Við plastið geta einnig loðað mengandi efni sem hafa slæm áhrif á umhverfið.

Hvað með pokann í rusladallinn?

Pakki af maíspokum með 20 pokum kostar um 400 krónur. Maíspokar „eru 100% niðurbrjótanlegir pokar – gerðir úr maíssterkju“. Einnig er hægt að kaupa ruslapoka með höldum sem eru ódýrari. Þeir eru „úr polyethylin, gefa ekki frá sér eiturgufur við bruna. Úti í náttúrunni leysast þeir smám saman upp án þess að skaða lífríkið.“ Það eru því til pokar sem eru bæði ódýrari og umhverfisvænni en hefðbundnir burðarpokar verslana til að nota undir heimilissorpið.

Hreinsunarátak

Plastpokalaus Garðabær er liður í hreinsunarátakinu sem er nú haldið fyrstu tvær vikurnar í apríl. Í hreinsunarátakinu sem er árlegt tekur fólk sig saman um að hreinsa til í sínu nærumhverfi. Það geta t.d. verið nágrannar, félög eða skólar. Hóparnir tína saman ruslið og starfsmenn bæjarins fara síðan um og hirða upp eftir þá. Hóparnir geta sótt um styrk frá bænum fyrir sitt framlag, sem þeir nýta ýmist sem fjáröflun eða til að verðlauna hópinn, t.d. með grillveislu.