3. apr. 2014

Undurfagrir tónar á Þriðjudagsklassík

Þriðjudaginn 1. apríl sl. hóf tónleikaröðin Þriðjudagsklassík göngu sína á ný í sal Tónlistarskóla Garðabæjar við Kirkjulund.
  • Séð yfir Garðabæ

Þriðjudaginn 1. apríl sl. hóf tónleikaröðin Þriðjudagsklassík göngu sína á ný í sal Tónlistarskóla Garðabæjar við Kirkjulund.  Það er menningar- og safnanefnd sem stendur að tónleikaröðinni og listrænn stjórnandi er Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópransöngkona og kórstjóri Kvennakórs Garðabæjar.  Í viðtali í Garðapóstinum sem kom út 27. mars sl. segir Ingibjörg Guðjónsdóttir að viðtökurnar hafi verið góðar þegar tónleikaröðin var haldin í fyrsta sinn fyrra vor.  ,,Tónleikarnir voru allir vel sóttir og ánægja með þessa nýju viðbót í menningarlíf Garðbæinga. Ekki spillti fyrir að bæði tónleikagestir og flytjendur hrifust af salarkynnum Tónlistarskólans en salurinn hentar einstaklega vel fyrir smærri tónleika eins og þessa og hljómburður afburða góður.
Tónleikarnir í ár verða með sama sniði og í fyrra, þ.e. klukkustundar langir, án hlés.  Efnisskrá hverra tónleika mun eflaust endurspegla þann listamann og það hljóðfæri sem er í öndvegi hverju sinni."

Tríó skipað frábærum listamönnum

Á fyrstu tónleikunum þann 1. apríl sl. komu fram Sigrún Eðvaldsdóttir, fiðluleikari, Bryndís Halla Gylfadóttir, sellóleikari og Domenico Codispoti, píanóleikari.  Þær Sigrún og Bryndís Halla eru meðal þekktustu og virtustu tónlistarmanna landsins en þær ólust báðar upp í Garðabænum og starfa báðar í Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sigrún sem konsertmeistari og Bryndís Halla sem fyrsti sellóleikari hljómsveitarinnar. Þær fengu til liðs við sig heimsþekktan ítalskan píanóleikara, Domenico Codispoti, sem hefur hvarvetna hlotið lof áheyrenda og gagnrýnenda fyrir leik sinn og unnið til fjölda verðlauna. Á efnisskránni þetta kvöld voru meðal annars verk eftir tékkneska tónskáldið Dvorak, spænska tónskáldið Turina og argentínska tangósnillingin Piazzolla.  Gestir kunnu vel að meta þá undurfagra tóna sem hljómuðu í sal Tónlistarskólans og klöppuðu vl og lengi fyrir flytjendurna að loknum tónleikum.

Næstu tónleikar

Tvennir tónleikar eru eftir í tónleikaröðinni að þessu sinni og fyrsta þriðjudag í maí og júní. Á næstu tónleikum þann 6. maí mun undurfagur óbóleikur Peter Tompkins óma í enskum tónverkum frá 19. og 20. öld en píanóleikari tónleikanna er Valgerður Andrésdóttir. Peter er óbóleikari í Sinfóníuhljómsveitar Íslands og búsettur í Garðabæ. Á síðustu tónleikum þriðjudaginn 3. júní stíga á svið Ágúst Ólafsson, barítónsöngvari og Eva Þyri Hilmarsdóttir, píanóleikari.  Þau munu flytja fjölbreytta efnisskrá sem þau kalla Sólarsöngva. Ágúst er einn þekktasti óperusöngvari landsins og tekur reglulega þátt í uppfærslum Íslensku óperunnar auk þess að vera einn fremsti ljóðasöngvari þjóðarinnar og hlotnast í tvígang viðurkenninguna Söngvari ársins. Tónleikarnir verða allir í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar og tónlistarunnendur geta líka fylgst með á fésbókarsíðu tónleikaraðarinnar.