25. mar. 2014

Verðlaun fyrir framúrskarandi árangur

Fulltrúar Tónlistarskóla Garðabæjar hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í opnum flokki á lokatónleikum Nótunnar sem haldnir voru í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 23. mars
  • Séð yfir Garðabæ

Fulltrúar Tónlistarskóla Garðabæjar hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í opnum flokki á lokatónleikum Nótunnar sem haldnir voru í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 23. mars. Hópurinn sem samanstendur af níu ungmennum á saxófón og slagverk flutti verkið Bolero eftir M. Ravel í útsetningu kennara síns Braga Vilhjálmssonar.

Martial Nardeau flautuleikari afhenti verðlaunin í opna flokknum og nefndi þá hversu óvenjulegt það væri að hlýða á saxófóna flytja þetta þekkta verk ásamt slagverkinu. Flutningur nemenda Tónlistarskóla Garðabæjar hefði sannað svo ekki væri um villst að það væri vel hægt og meira en það. Laufey Ólafsdóttir, skólastjóri Tónlistarskólans tekur undir það og segir að hópurinn hafi spilað af ótrúlegu öryggi og með glæsibrag.

Nótan er uppskeruhátíð tónlistarskólanna og eru lokatónleikarnir endapunktur hátíðarinnar. Tónlistarskólar um land allt völdu fyrr í vetur nemendur sem komu fram á svæðistónleikum víðs vegar um landið fyrstu þrjár helgarnar í mars. Á svæðistónleikunum voru síðan valin alls 24 atriði sem tóku þátt í lokatónleikunum. Alls hrepptu tíu atriði verðlaun á lokatónleikunum fyrir framúrskarandi árangur.

Hópinn frá Tónlistarskóla Garðabæjar skipa saxófónleikararnir: Björgvin Brynjarsson, Brynhildur Hermannsdóttir, Brynjar Örn Grétarsson, Gabríela Ómarsdóttir, Karitas Marý Bjarnadóttir, Ólafur Hákon Sigurðarson, Viktor Andri Sigurðsson og Vilborg Lilja Bragadóttir ásamt Helga Þorleikssyni á slagverk.

Valnefndinina skipuðu Helga Þórarinsdóttir víóluleikari, Martial Nardeau flautuleikari og Þóra Einarsdóttir óperusöngkona.