Fjörugt Flatóvsion 2014
Flatóvisionhátíð var haldin í Flataskóla sl. föstudag í tengslum við eTwinningverkefnið Schoolovision sem skólinn hefur tekið þátt í síðan 2009.
Allir nemendur í 4. til 7. bekk taka þátt í verkefninu og geta lagt fram atriði til að keppa um framlagið fyrir hönd skólans og landsins en það er aðeins einn skóli í hverju landi sem fær að taka þátt. Níu atriði voru lögð fram að þessu sinni og voru þau hvert öðru frambærilegri.
Dómarar voru bæði utanaðkomandi og úr skólanum og var þeirra hlutverk að velja hæfasta atriðið. Meðal annars komu þeir Arnar og Ragnar úr hljómsveitinni Of Monsters and Men og nemendur úr fulltrúaráði Garðaskóla, fyrrverandi nemendur Flataskóla. Að þessu sinni urðu fjórðu bekkingar hlutskarpastir með lagið „Eitt lag enn“ sem Gréta Mjöll flutti í söngvakeppni sjónvarpsins núna fyrir stuttu.
Aðstandendur nemenda fjölmenntu og hátíðarsalur skólans rétt svo rúmaði allan fjöldann, öngþveiti var á bílastæðinu um hádegi þennan dag og voru bílastæði allt í kringum Flataskóla, Garðaskóla og Hagkaup vel nýtt. Það er ánægjulegt hve þetta verkefni vekur mikla athygli forráðamanna nemenda enda teljum við að nemendur öðlist margvíslegan þroska og læri margt við að taka þátt í því. Við bendum þeim sem hafa áhuga á að lesa frekar um verkefnið á heimasíðu Flataskóla.