Beetlejuice í FG
Leiksýningin Beetlejuice var frumsýnd í Urðarbrunni, hátíðarsal Fjölbrautaskólans í Garðabæ, miðvikudaginn 26. febrúar sl. Það er leikfélag FG, Verðandi, sem stendur að sýningunni í skólanum. Leikstjóri sýningarinnar er Svandís Þóra Einarsdóttir leikkona og leikstjóri með meiru. Um 100 manns koma að sýningunni og þar af eru um 20 með hlutverk á sviði en fjölmargir aðstoða við tæknimál, ljós-, hljóð, búninga, förðun, tónlist, markaðsmál o.fl. Heilmikil vinna hefur farið fram við undirbúning sýningarinnar og mikið lagt í sviðsmyndina. Fullt hús var á frumsýningunni og áhorfendur stóðu upp í sætum að lokinni sýningu og fögnuðu vel og lengi.
Sýningar framundan
Leiksýningin Beetlejuice fjallar um ungt par sem lendir í slysi og á erfitt með að fóta sig í hinum dauða heimi. Áhugaverð fjölskylda flytur inn í húsið þeirra og þau fléttast inn í söguþráðinn á fyndinn og skemmtilegan hátt. Framundan eru fjölmargar sýningar á verkinu og næstu sýningar verða dagana 1. mars, 2. mars og 6. mars. Einnig eru fleiri sýningar síðar í mars mánuði. Á vefsíðu leikfélagsins Verðandi er hægt að sjá sýningardaga og panta miða á sýninguna: http://www.leikfelagid-verdandi.com/panta-mida/
Sjá einnig upplýsingar um starf Fjölbrautaskólans í Garðabæ á vef skólans, www.fg.is