14. feb. 2014

Samið um hönnun Urriðaholtsskóla

Úti og inni arkitekar og samstarfsaðilar taka að sér hönnun á Urriðaholtsskóla skv. samningi sem undirritaður var í gær.
  • Séð yfir Garðabæ

Ráðgjafarsamingur um hönnun á Urriðholtsskóla var undirritaður í gær.  Hönnunarhópinn, sem var valinn eftir útboð, mynda: Landform, VEB - teiknistofa,  Lagnatækni, Verkhönnun, VSÍ, öryggishönnun og ráðgjöf og Önn ehf.

Samningsfjárhæðin er 106,8 milljónir króna.

Samkvæmt áætlun hönnunarhópsins skal fullnaðarhönnun 1. áfanga lokið 1. desember 2014 en útboð jarðvinnu skal fara fram 1. október 2014.

Í útboðsgögnum kemur fram að miðað er við að byggingin fullbyggð rúmi sex deilda leikskóla með um 120 heilsdagspláss og grunnskóla fyrir allt að 700 börn á grunnskólaaldri. Áformað er að reisa skólabygginguna í áföngum þannig að í fyrsta áfanga verði um 100 heilsdagspláss fyrir  börn á leikskólaaldri og rými fyrir um 250 börn á grunnskólaaldri (1 - 10 bekk).

Lagt er til að verkefnisstjórn sem vann að gerð útboðslýsingar starfi áfram og stýri verkefninu. Í verkefnastjórn eru:  Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Eysteinn Haraldsson bæjarverkfræðingur, Margrét Björk Svavarsdóttir, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs  og Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Urriðaholts.

Einnig er lagt að bæjarráð skipi byggingarnefnd vegna framkvæmda við byggingu skólans.

  Frá undirritun samnings um hönnun Urriðaholtsskóla

Á myndinni eru frá vinstri: Jón Pálmi Guðmundsson frá Urriðaholti ehf., Margrét Björk Svavarsdóttir, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, Erlendur Birgisson frá VEB verkfræðistofu, Friðrik Júlíusson frá Lagnatækni, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Baldur Svavarsson arkitekt frá Úti og inni, Bjarnþór Sigurður Harðarson frá Verkhönnun og Gunnar Kristjánsson frá VÍS, öryggishönnun og ráðgjöf.