11. feb. 2014

Samstarf um þróun skólastarfs

Í síðustu viku komu í heimsókn í Garðabæinn góðir gestir frá sveitarfélaginu Southend-On-Sea í Bretlandi. Skóladeild Garðabæjar fékk nýlega Comeniusar Regio styrk til tveggja ára samstarfs við sveitarfélagið um þróun og framfarir í skólamálum.
  • Séð yfir Garðabæ

Í síðustu viku komu í heimsókn í Garðabæinn góðir gestir frá sveitarfélaginu Southend-On-Sea í Bretlandi. Skóladeild Garðabæjar fékk nýlega Comeniusar Regio styrk til tveggja ára samstarfs við sveitarfélagið um þróun og framfarir í skólamálum. Heimsókn Bretanna var annað skrefið í samstarfinu en áður höfðu fulltrúar skóladeildar Garðabæjar, Fjölbrautaskólans í Garðabæ, Garðaskóla og Klifsins farið í heimsókn til Shoeburyness High School í Southend-On-Sea.

Glaðir og einbeittir nemendur

Gestirnir frá Bretlandi heimsóttu sex skóla í Garðabæ á tveimur dögum. Ferðin hófst í Álftanesskóla þar sem Sveinbjörn Njálsson skólastjóri sagði þeim frá uppbyggingarstefnunni sem þau voru þau mjög hrifin af. Þeir höfðu á orði að nemendur í Álftanesskóla og í leikskólanum Krakkakoti, sem þeir heimsóttu líka, væru einbeittir við verkefnin og að gleði skini af andlitum þeirra. Í Flataskóla síðar sama morgun fannst þeim áhugavert að sjá úrval Comeníusarverkefna og E-Twinning verkefna sem þar er unnið að. Nemendur í 5. bekk elduðu hádegismat fyrir hópinn og lögðu á borð. Eftir hádegi kom hópurinn við á bæjarskrifstofunum þar sem hann fékk kynningu á Garðabæ og átti samtal við Gunnar Einarsson, bæjarstjóra um skólamál og þann lærdóm sem menn vonast til að draga af samstarfinu. Eftir þá heimsókn var haldið í Hofsstaðaskóla og hringekjur í 5.bekk skoðaðar. Enn og aftur höfðu gestirnir á orði að nemendur virtust áhugasamir og einbeittir í viðfangsefnunum. 

Afslappað andrúmsloft

Á fimmtudag hófst heimsóknin í Garðaskóla. Þau fóru um skólann og litu inn í tíma í stærðfræði, heimilisfræði, ensku og náttúrufræði og skoðuðu afrakstur Comeníusarverkefna. Þaðan var förinni heitið í Sjálandsskóla og að lokum í FG.  Eftir þessa þéttu dagskrá skólaheimsókna ræddu Bretarnir um upplifun sína og var niðurstaða þeirra meðal annars sú að þeim fyndist andrúmsloftið mun afslappaðra í skólunum í Garðabæ en þeir eiga að venjast í starfi sínu í Bretlandi.

Erindi um kennslu og nám

Á föstudeginum var haldinn sameiginlegur fundur skólastjórnenda í grunnskólum Garðabæjar og gestanna. Þar ræddu gestirnir um upplifun sína af heimsókninni hér á landi og næstu skref í verkefninu. Næstu skref eru þau að fjórir skólastjórar (Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Sjálandsskóla) fara til Englands í mars og fá að fylgjast með kennslu og mati á kennslustundum í Shoeburyness High School, sem er samstarfsskólinn.

Frá 10:15 - 11:30 hélt dr. Dave Anderson erindi fyrir skólastjórnendur í Garðabæ um kennslu og nám (teaching and learning) en Dave mun starfa sem sérstakur ráðgjafi í verkefninu. Þar sköpuðust líflegar umræður og verður áhugavert að fylgjast með því hvaða áhrif þetta verkefni á eftir að hafa á kennslu og nám í skólum Garðabæjar