31. jan. 2014

Safnanótt í Garðabæ í fimmta sinn

Föstudagskvöldið 7. febrúar nk. verður haldin Safnanótt á höfuðborgarsvæðinu. Í Garðabæ verður boðið upp á dagskrá í Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar bæði á Garðatorgi og í útibúinu á Álftanesi. Einnig verður opið hús í Króki á Garðaholti. Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð og fimmta árið í röð taka nú fjölmörg söfn af öllu höfuðborgarsvæðinu þátt.
  • Séð yfir Garðabæ

Föstudagskvöldið 7.  febrúar nk. verður haldin Safnanótt á höfuðborgarsvæðinu.  Í Garðabæ verður boðið upp á dagskrá í Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar bæði á Garðatorgi og í útibúinu á Álftanesi.  Einnig verður opið hús í Króki á Garðaholti. Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð og fimmta árið í röð taka nú fjölmörg söfn af öllu höfuðborgarsvæðinu þátt.  

Formleg dagskrá Safnanætur stendur yfir frá kl. 19 um kvöldið til miðnættis og ókeypis aðgangur er í öll söfn á Safnanótt.   Sérstakur safnanæturstrætó gengur á milli safnanna á föstudagskvöldinu og auðveldar gestum að heimsækja fjölmörg söfn á einu kvöldi.  Safnanæturleikur verður í gangi og þátttökuseðla má nálgast í söfnunum.  Hér má sjá dagskrána í Garðabæ á Safnanótt og á vef Vetrarhátíðar, www.vetrarhatid.is er hægt að sjá hvað er um að vera annars staðar.   Garðabær tekur nú einnig þátt í Sundlauganótt í fyrsta sinn sem verður haldin laugardagskvöldið 15. febrúar. 

Ertu tilbúin frú forseti?

Ertu tilbúin frú forseti? er heitið á nýrri sýningu í Hönnunarsafni Íslands sem er til húsa að Garðatorgi 1. Föstudaginn 7. febrúar  verður boðið upp á tvær leiðsagnir um sýninguna kl. 20:00 og kl. 22:00. Á sýningunni er fjölbreytt úrval fatnaðar og fylgihluta frú Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands.  Á 16 ára forsetatíð ruddi Vigdís ekki aðeins braut kvenna til nýrra metorða í vestrænum samfélögum, heldur stóð hún frammi fyrir því að móta hefð um klæðaburð fyrir konu í slíku embætti. Á sýningunni er varpað ljósi á ýmsar siðareglur og hefðir sem ríkja innan þess umhverfis sem þjóðhöfðingjar eru í, bæði í daglegum störfum sínum og þegar um opinberar heimsóknir er að ræða. 

Jafnframt verður hægt að skoða sýninguna Paradigm eða Viðmið í innri sal Hönnunarsafnsins á efri hæð.  Paradigm er norsk farandsýning sem samanstendur af verkum 18 norskra listamanna sem vinna með gler, keramik og málma. Verkin á sýningunni eru eftir marga af fremstu listamönnum Norðmanna.   Ókeypis aðgangur er í safnið á Safnanótt.

Leikspuni,  ljósmyndasýning og tónlist í bókasafninu á Garðatorgi og Álftanesi

Í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi verður opnuð ljósmyndasýning á Safnanótt er nefnist Fólk og umhverfi .  Á sýningunni verða ljósmyndir í eigu bókasafnsins og Garðabæjar og gestum gefst tækifæri til að aðstoða við að miðla upplýsingum um fólk og staði á myndunum.   Kvennakór Garðabæjar mætir í safnið ásamt Ingíbjörgu Guðjónsdóttur bæjarlistamanni og kórstjóra og taka nokkur vel valin lög kl. 21 um kvöldið.

Siðustu ár hafa nemendur af leiklistarbraut FG með vel heppnaðan leikspuna í Bókasafninu á Safnanótt.  Nemendur af leiklistarbrautinni mæta nú aftur til leiks á Safnanótt og verða með leikspuna fyrir alla aldurshópa kl. 19:30 í Bókasafni Garðabæjar á Garðatorgi.   Leikspuninn, Leikið af fingrum fram,  verður endurtekinn síðar sama kvöld kl. 21:00 í útibúi bókasafnsins á Álftanesi. 

Í útibúinu á Álftanesi verður einnig hægt að hlýða á fallega tóna samspilshóp nemenda í Tónlistarskóla Garðabæjar sem stíga á stokk kl. 19:30 á Safnanótt og spila fyrir gesti og gangandi.   Bæði safnið á Garðatorgi og útibúið á Álftanesi verða með opið hús frá kl. 19-24 og heitt verður á könnunni fyrir gesti.

Burstabærinn Krókur opinn frá kl. 19-24

Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Bærinn er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á þessum landshluta á fyrri hluta 20. aldar.  Krókur er staðsettur stutt frá samkomuhúsinu á Garðaholti þar sem hægt er að leggja bílum við gatnamót Garðavegar og Garðaholtsvegar. 

Síðustu ár hefur verið hægt að heimsækja Bessastaði á Safnanótt en þar verður ekki nein dagskrá í ár  en stefnt að því að hafa opið hús síðar í vor fyrir almenning. Garðbæingar eru velkomnir í söfnin á Safnanótt!