20. des. 2013

Ánægja með þjónustu Garðabæjar

Garðabær fær hæstu einkunn allra sveitarfélaga í svörum við fjórum spurningum af tólf í nýrri þjónustukönnun Capacent sem gerð var í 16 stærstu sveitarfélögum landsins í nóvember.
  • Séð yfir Garðabæ
Garðabær fær hæstu einkunn allra sveitarfélaga í svörum við fjórum spurningum af tólf í nýrri þjónustukönnun Capacent sem gerð var í 16 stærstu sveitarfélögum landsins í nóvember. Garðabær er í öðru sæti í svörum við þremur spurningum og í 3. sæti í svari við einni. Einkunn Garðabæjar er í öllum tilfellum hærri en heildarmeðaltal sveitarfélaga.

Ánægja með skólana

Garðabær fær hæstu einkunn sveitarfélaga í svörum við spurningum um skipulagsmál almennt, þjónustu grunnskóla, þjónustu leikskóla og þjónustu starfsfólks á bæjarskrifstofum. Garðabær er í 2. sæti í svörum við spurningum um ánægju með þjónustu við barnafjölskyldur, þjónustu bæjarins í heildina litið og þjónustu við eldri borgara og í 3. sæti þegar spurt er um aðstöðu til íþróttaiðkunar.

Notendur þjónustu ánægðir

 Það vekur athygli þegar rýnt er í niðurstöðurnar að þeir sem notfæra sér tiltekna þjónustuþætti eru í flestum tilfellum ánægðari með þá en þeir sem nýta þá ekki. Þetta á t.d. við um þjónustu bæði leik- og grunnskóla. Þeir sem eiga börn á leik- og grunnskólaaldri gefa þjónustu þessara stofnana hærri einkunn en þeir sem ekki eiga börn á þessum aldri.

Metnaður til að gera enn betur

Gunnar Einarsson bæjarstjóri segist í meginatriðum vera ánægður með niðurstöðurnar. „Við eigum eftir að greina niðurstöðurnar nánar en ég get samt fullyrt nú þegar að við höfum metnað til að gera enn betur. Það er t.d. nokkur munur á svörum þeirra sem búa á Álftanesi og þeirra sem búa annars staðar í Garðabæ, á þann veg að þeir sem búa á Álftanesi gefa þjónustunni lægri einkunn en aðrir. Það er upplifun sem ég vil vinna að því að breyta. Að öðru leyti er ég þakklátur fyrir það að Garðbæingar skuli lýsa ánægju með starf okkar sem vinnum fyrir bæjarfélagið. Það hvetur okkur áfram til góðra verka.“ 

Skýrsla Capacent fyrir Garðabæ