18. des. 2013

Kveiktu á jólaljósunum á Bessastöðum

Börn úr Álftanesskóla og af leikskólunum á Álftanesi fóru þann 10. desember sl. í heimsókn á Bessastaði og aðstoðuðu forsetann við að kveikja ljósin á jólatrénu
  • Séð yfir Garðabæ

Börn úr Álftanesskóla og af leikskólunum á Álftanesi fóru þann 10. desember sl. í heimsókn á Bessastaði. Sú hefð hefur skapast að forsetaembættið býður börnunum að koma með rútu til Bessastaða og hjálpa til við að kveikja ljósin á jólatrénu. Við það tilefni fær forsetinn börnin til að hjálpa sér við að kalla inn jólin með því að hrópa hátt gleðileg jól. Við kallið kvikna ljósin á trjánum og jólasveinarnir koma úr felum.

Börnin, sem eru í yngstu deild Álftanesskóla og á elstu deildum leikskólanna Krakkakots og Holtakots, fengu heitt súkkulaði og piparkökur við Bessastaði. Síðan var dansað og sungið við undirspil harmonikkutóna í kringum jólatrén. Veðrið var með besta móti, mikill stilla og snjór yfir öllu sem skapaði mikla jólastemmningu.