5. des. 2013

Ljósin tendruð á vinabæjarjólatrénu

Laugardaginn 7. desember nk. verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi. Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 44. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan. Athöfnin á laugardag hefst kl. 16 á Garðatorgi fyrir framan ráðhúsið
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 7. desember nk. verða ljósin tendruð á jólatrénu á Garðatorgi.  Jólatréð er gjöf frá Asker, vinabæ Garðabæjar í Noregi, og þetta er í 44. sinn sem Garðbæingar fá þessa vinasendingu þaðan.  Athöfnin á laugardag hefst  kl. 16 á Garðatorgi fyrir framan ráðhúsið. Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar leikur fyrir gesti og Margrét Guðmundsdóttir fulltrúi Norræna félagsins í Garðabæ, býður gesti velkomna. Sendiherra Noregs á Íslandi Dag Vernø Holter afhendir tréð fyrir hönd Asker og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, veitir trénu viðtöku. Skólabörn úr Flataskóla syngja nokkur lög fyrir viðstadda og að lokum koma jólasveinar til byggða og flytja jólalög. 

Barnaleikrit og myndlistarsýning

Ýmislegt verður einnig um að vera fyrr um daginn í miðbæ Garðabæjar.  Að venju er leiksýning í Bókasafni Garðabæjar,  sem að þessu sinni hefst kl. 15 þegar leikhópurinn Lotta sýnir Rauðhetta í jólaskapi. Leiksýningin verður haldin á efri hæð safnsins að Garðatorgi 7.  Gunnella opnar málverkasýningu í Gróskusalnum á Garðatorgi kl. 14 og þar er opið til kl. 18 á laugardeginum.

 

Opið hús í Hönnunarsafni Íslands og ný sýning opnuð

Í tilefni dagsins verður ókeypis aðgangur í Hönnunarsafn Íslands á laugardeginum.  Hönnunarsafnið er staðsett við Garðatorg 1.  Að lokinni athöfn úti á torgi eða nánar tiltekið um kl. 16:30 opnar sýningin Viðmið / Paradigm í Hönnunarsafninu.  Sýningin er norsk farandsýning sem kemur hingað fyrir tilstilli norska sendiráðsins og sýningin samanstendur af verkum 18 norskra listamanna sem vinna með gler, keramik og málma. Verkin á sýningunni eru eftir marga af fremstu listamönnum Norðmanna.  Um kl. 16:40 syngur Árnesingakórinn í Hönnunarsafninu í tilefni af opnun sýningarinnar. 

Allir eru velkomnir á Garðatorgið til að taka þátt í jóladagskránni.