23. maí 2014

Soffía Sæmundsdóttir er bæjarlistamaður Garðabæjar 2014

Soffía Sæmundsdóttir myndlistarmaður er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2014. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar árið 2014 á Menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu á Garðaholti fimmtudaginn 22. maí.
  • Séð yfir Garðabæ

Soffía Sæmundsdóttir myndlistarmaður er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2014. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar árið 2014 á Menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu á Garðaholti fimmtudaginn 22. maí. Allt frá árinu 1992 hefur Garðabær veitt styrk til listamanns eða listamanna. Sá aðili sem fyrir valinu verður hefur fengið þann heiður að vera nefndur bæjarlistamaður Garðabæjar.

Þetta var í þriðja sinn sem sérstök menningaruppskeruhátíð er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar.  Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar til ungra og efnilegra listamanna í Garðabæ sem fengu úthlutaða styrki úr Hvatningarsjóði ungra listamanna vorið 2014. Við þetta tækifæri var skrifað undir samstarfssamning við félagið Grósku, samtaka myndlistarmanna og áhugamanna um myndlist í Garðabæ. Gróska hefur á undanförnum árum staðið fyrir mörgum myndlistarsýningum og hefur einnig átt frumkvæði að og skipulagt Jónsmessugleði í samstarfi við Garðabæ. Á meðan á menningaruppskeruhátíðinni stóð gátu gestir einnig skoðað örmyndlistarsýningu Grósku sem var sett upp í hlöðunni við bæinn Krók á Garðaholti.  Ingibjörg Guðjónsdóttir söngkona og fráfarandi bæjarlistamaður Garðabæjar gladdi gesti með söng við undirleik Sólveigar Önnu Jónsdóttur á píanó.

Eins og undanfarin ár þá var veitt sérstök heiðursviðurkenning til einstaklings sem hefur skarað framúr á sínu sviði og að þessu sinni var Manfreð Vilhjálmsson arkitekt og íbúi á Álftanesi í Garðabæ heiðraður fyrir framlag sitt á sviði byggingarlistar.

Soffía Sæmundsdóttir -  bæjarlistamaður Garðabæjar 2014

Soffía Sæmundsdóttir (f. 1965) hefur verið virk í íslensku myndlistarlífi undanfarinn áratug. Hún stundaði myndlistarnám í grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987-1991 og lauk Mastersgráðu í málun(MFA) frá Mills College í Oakland, Kaliforníu 2001-2003.
Hún hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum heima og erlendis. Verk hennar hafa verið sýnd víða m.a. í Evrópu og Norður-Ameríku. Soffía hefur þegið vinnustofudvöl í Leighton Studio’s í Banff Centre í Kanada, á Skriðuklaustri í Gunnarsstofu og í Varmahlíð í Hveragerði. Árið 2012 dvaldi hún í Lukas Künstlerhaus í Ahrenshoop Þýsklandi.  Henni hafa hlotnast margvíslegar viðurkennningar fyrir list sína, m.a. ferða- og dvalarsjóð Muggs, Myndstef, Jay De Fao verðlaunin(2003)og Joan Mitchell Painting and sculpture award(2004) kennd við samnefndar stofnanir. Hún var verðlaunahafi í Winsor og Newton alþjóðlegri málverkasamkeppni 2000. Verk hennar eru í eigu fjölmargra opinberra aðila og stofnana.

Hún er félagi í SÍM (Sambandi íslenskra myndlistarmanna) og er formaður félagsins Íslensk grafík. Soffía býr á Álftanesi en er með vinnustofu að Fornubúðum 8 í  Hafnarfirði.  Hún er vinsæll kennari og hefur haldið fjölmörg námskeið einkum í olíumálun. Soffía hefur einnig verið virk í að segja frá verkum sínum, vinnuferli og miðla upplýsingum um myndlist í gegnum bloggsíður á netinu.

 

Manfreð Vilhjálmsson - heiðursviðurkenning

Manfreð Vilhjálmsson útskrifaðist sem arkitekt árið 1954 frá Chalmers tækniháskólanum í Gautaborg í Svíþjóð.  Að námi loknu vann hann um tveggja ára skeið í Gautaborg og flutti svo heim árið 1956 og starfaði fyrst um sinn á teiknistofu Skarphéðins Óskarssonar.  Nokkrum árum síðar hóf Manfreð rekstur eigin teiknistofu.   Manfreð var í samstarfi við Þorvald S. Þorvaldsson arkitekt um rekstur stofu á árunum 1967-1984 og árið 1996 stofnaði Manfreð fyrirtækið Manfreð Vilhjálmsson – Arkitektar ehf.  ásamt Árna Þórolfssyni og Steinari Sigurðssyni arkitektum. 

Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir verk sín þar má nefna Menningarverðlaun DV árin 1980 og 1988 og heiðursviðurkenningu menningarverðlauna DV árið 2009 fyrir framlag sitt til íslenskrar byggingarlistar.  Manfreð hlaut hina íslensku fálkaorðu árið 1996 og var kjörinn heiðursfélagi Arkitektafélag Íslands árið 2011.  Árið 2009 kom út bók um Manfreð tileinkuð verkum hans og starfsferli sem Halldóra Arnardóttir listfræðingur og Pétur H. Ármansson arkitekt ritstýrðu. 

Manfreð hefur hannað margs konar byggingar á starfsævi sinni eins og einbýlishús, þjónustumiðstöð, kirkju, skólabyggingar eins og Skálholtsskóla og Þjóðarbókhlöðu.  Nokkur hús eftir Manfreð og samstarfsmenn eru á lista minjastofnunar yfir friðlýst hús og þar má m.a. nefna Smiðshús á Álftanesi hannað af Manfreð og Guðmundi Kr. Kristinssyni þar sem Manfreð býr sjálfur í dag.  Annað hús sem má nefna er Mávanes 4 í Garðabæ sem hefur verið fjallað um innlendis sem erlendis. 

Gaman er að geta þess að Hönnunarsafn Íslands í Garðabæ á verk eftir Manfreð, ekki byggingu heldur villa-traktor sem var smíðaður eftir teikningu Manfreðs sem bjó leikfangið upphaflega til handa syni sínum.  Hönnunarsafnið fékk traktorinn að gjöf frá nokkrum vinum Manfreðs sem ákváðu að láta smíða nokkra traktora eftir teikningum hans árið 2008 í tilefni af áttræðisafmælis Manfreðs.