27. nóv. 2013

Viðurkenning fyrir fyrirmyndarverkefni

Flataskóli hlaut viðurkenningu fyrir fyrirmyndarverkefni í flokki grunnskóla á uppskeruhátíð samstarfsáætlana ESB
  • Séð yfir Garðabæ
Flataskóli hlaut viðurkenningu fyrir fyrirmyndarverkefni í flokki grunnskóla á uppskeruhátið samstarfsáætlana ESB í Hafnarhúsinu í Reykjavík 22. nóvember sl. Verkefnið "Sköpunarkrafturinn - listin að lesa" (Art of Reading - Power of Creativity) sem Ingibjörg Baldursdóttir bókasafnsfræðingur og Kolbrún Svala Hjaltadóttir kennsluráðgjafi stýrðu, fékk styrk úr Comeniusarhluta Menntaáætlunar Evrópusambandsins veturna 2010 – 2012. Verkefninu var ætlað að auka áhuga nemenda á læsi og lestri og tók nær allt starfsfólk og nemendur skólans þátt í því. Var það unnið í samvinnu við fimm önnur lönd í Evrópu; Ítalíu, Spán, England, Pólland og Tyrkland. Á hátíðinni settu þær Kolbrún og Ingibjörg upp bás þar sem þær kynntu og sýndu gögn frá verkefnavinnunni. Frekari upplýsingar um verkefnið eru á vef skólans.

Umsögn um verkefnið var á þessa leið: "Verkefnið var vel skipulagt og fjölbreytt. Nær allir nemendur skólans tóku þátt í því ásamt langflestu starfsfólki skólans. Foreldrar tóku einnig þátt. Lögð var áhersla á að verkefnið félli inn í skólanámskrána og hefur margt af því sem unnið var öðlast sess í skólanum, samanber lestrarmaraþon, ratleik, bókaklúbba og lestrarátak. Verkefnið jók áhuga nemenda á lestri og var framkvæmd og kynning þess til fyrirmyndar".

Hópur stúlkna úr 7. bekk í Flataskóla söng og dansaði frumsaminn dans á hátíðinni, sem var eitt af dagskráratriðum hennar.