22. maí 2014

Afhenti starfsmönnum blóm fyrir afrek sín

Gunnar Einarsson bæjarstjóri heimsótti Hofsstaðaskóla í morgun og afhenti tveimur starfsmönnum hans blómvendi fyrir frækileg afrek.
  • Séð yfir Garðabæ

Gunnar Einarsson bæjarstjóri heimsótti Hofsstaðaskóla í morgun og afhenti tveimur starfsmönnum hans blómvendi fyrir frækileg afrek.

Landsliðskonan Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, kennari í Hofsstaðaskóla lauk nú í vor löngum og farsælum handknattleiksferli sínum með því að landa Íslandsmeistaratitlinum með Val. Valur bar sigurorð af Stjörnunni í úrslitaleik sem fram fór í Mýrinni í Garðabæ þann 17. maí sl. Hrafnhildur hefur hampað íslandmeistaratitli alls fjórum sinnum á ferlinum, orðið bikarmeistari, spilað á heimsmeistaramóti, leikið sem atvinnumaður í Danmörku og verið fyrirliði íslenska landsliðsins svo eitthvað sé talið. 

Sædís S. Arndal var nýlega valin nýsköpunarkennari grunnskólanna 2014 en hún hefur kennt nýsköpun í Hofsstaðskóla sl. 10 ár. Árið 2011 vann Hofsstaðaskóli farandbikar til eignar eftir að hafa þrjú ár í röð átt hlutfallslega flestar innsendar umsóknir í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna miðað við nemendafjölda. Nú í ár hlýtur skólinn bikar til eignar öðru sinni en í ár sendu nemendur í 5.-7. bekk inn tæplega 800 umsóknir sem gerir nærri 4 umsóknir á hvern nemanda að meðaltali. Sjá frétt frá 20. maí.