16. okt. 2013

Fjörugar umræður á hverfafundi

Annar hverfafundurinn í fundaröð bæjarstjóra með íbúum Garðabæjar var haldinn í Hofsstaðaskóla í gær með íbúum í Akrahverfi, Túnum og Mýrum.
  • Séð yfir Garðabæ

Annar hverfafundurinn í fundaröð bæjarstjóra með íbúum Garðabæjar var haldinn í Hofsstaðaskóla í gær með íbúum í Akrahverfi, Túnum og Mýrum.

Um 50 manns sóttu fundinn og skiptust á skoðunum við bæjarstjóra um ýmis málefni tengd hverfunum. Hæst bar umræðu um fyrirhugaða hljóðmön við Hafnarfjarðarveg. Gunnar Einarsson bæjarstjóri sýndi myndir af frumhönnun á möninni og sagðist vonast til að hægt yrði að hefja framkvæmdir við hana á þessu ári. Fram komu ólík sjónarmið um hversu langt í suður mönin ætti að ná en þar spila inn í annars vegar óskir um bætta hljóðvist og hins vegar óskir um að halda útsýninu.

Nokkur umræða varð um umhverfismál og umgengni í bænum og sérstaklega hvort og hvernig væri hægt að virkja íbúa til að sjá um snyrtimennsku í sínu nærumhverfi.

Gunnar sýndi einnig drög að hönnun á viðbyggingu við Hofsstaðaskóla en gert er ráð fyrir að framkvæmdir við hana geti hafist næsta vor og að þeim verði lokið fyrir upphaf skólaárs 2015.

Fundargerð frá fundinum.

Næsti hverfafundur verður þriðjudaginn 22. október með íbúum í Hæðum, Holtum, Byggðum, Búðum og Bæjargili. Sá fundur verður líka í Hofsstaðaskóla.