2. okt. 2013

Virk umhverfisvernd á Kirkjubóli

Á leikskólanum Kirkjubóli er mikil áhersla lögð á græn gildi og umhverfismál. Elstu börnin í leikskólanum eru í umhverfisnefnd sem hefur heilmikið hlutverk.
  • Séð yfir Garðabæ

Á leikskólanum Kirkjubóli er mikil áhersla lögð á græn gildi og umhverfismál. Elstu börnin í leikskólanum eru í umhverfisnefnd sem hefur heilmikið hlutverk. Eitt af þessum hlutverkum er að flokka úrganginn sem safnast í skólanum. 

Til að undirbúa þau fyrir verkefnið var lesin bók með börnunum sem heitir „Hvers vegna ætti ég að endurvinna?“ Þar kemur fram að það er hægt að nota marga hluti á annan hátt en við erum vön og að margt er hægt að endurvinna. Dósir geta t.d. orðið að hlaupahjóli eða hjólabretti, plast getur orðið að flíspeysum/fötum og epli og annar matur getur orðið að moltu. Börnin veltu þessu fyrir sér og komust að því að það er ekki skynsamlegt að grafa/urða allt sem við erum hætt að nota, heldur ætti að finna því önnur hlutverk.

Þegar börnin hófust handa við að flokka voru þau óviss á því hvað væri plast,, hvað væri gler og hvað timbur. Þau voru hinsvegar fljót að læra og á skömmum tíma voru þau búin að flokka í sex mismunandi hrúgur. Þá var skoðað hvaða hrúga væri stærst og það reyndist vera hrúgan sem innihélt plastið.