21. maí 2014

Gengið frá kaupum á Holtsbúð 87

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri undirritaði nýlega samning um kaup bæjarins á húsnæði Sankti Jósefssystra að Holtsbúð 87.
  • Séð yfir Garðabæ

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri undirritaði nýlega samning um kaup bæjarins á húsnæði Sankti Jósefssystra að Holtsbúð 87.

Undirritunin fór fram í klaustri Sankti Jósefssystra í Kaupmannahöfn. Kaupverðið er 200,0 mkr sem greiðist verðbætt en án vaxta á næstu 10 árum. Sankti Jósefsystur hafa þar með selt allar eignir sínar hér á landi en þær hættu allri starfsemi hér um síðustu aldamót.

Garðabær úthlutaði systrunum lóðinni við Holtsbúð á árinu 1974 og var húsnæðið tekið í notkun nokkrum árum síðar. Húsnæðið var heimili systranna hér á landi til ársins 1998 en í desember það ár var húsnæðið leigt Garðabæ til að starfrækja þar hjúkrunarheimili.

Við undirritunina voru viðstaddar systir Emmanuelle og systir Hendrika en þær störfuðu hér á landi um árabil og bjuggu í Holtsbúð til ársins 1998. Báðar tala þær fína íslensku og sagði systir Emmanuelle bæjarstjóranum frá því að hún hafi notið þess mikið að búa í Holtsbúð á sínum tíma.

Húsnæði Holtsbúðar er að hluta til notað í dag af fyrirtækinu Sinnum sem starfrækir aðhlynningu og heimaþjónustu. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um notkun hússins í framtíðinni en í kaupsamningi er kvöð um að eignin verði nýtt fyrir starfsemi í þágu aldraðra eða aðra sambærilega starfsemi á sviði mannúðar, heilbrigðismála eða starfsemi fyrir börn og ungmenni.