16. sep. 2013

Framkvæmdir í miðbænum ganga vel

Framkvæmdir standa nú yfir á fjórum stöðum í miðbæ Garðabæjar. Áætlað er að taka hluta nýja bílakjallarans í notkun í desember nk.
  • Séð yfir Garðabæ

Framkvæmdir standa nú yfir á fjórum stöðum í miðbæ Garðabæjar og eru  verkefnin komin mislangt:

  • Við Kirkjulund 12 – 14 er byggingarverktakinn Kristjánssynir ehf. langt kominn með tvö íbúðarhús með alls 32 íbúðum og bílakjallara. Frágangi utanhúss er að mestu lokið og verða fyrstu íbúðir afhentar í febrúar 2014.
  • Verið er að ljúka frágangi við 24 ný skammtímastæði við Garðatorg 7 og eru verklok á næsta leyti. Gróðursetning í trjábeðum fer þó ekki fram fyrr en í október. Þessi bílastæði verða kærkomin viðbót við skammtímastæði viðskiptavina á Garðatorgi og eru bundnar vonir við að þau létti á álaginu sem þar er.
  • Á miðju Garðatorgi er byrjað að reisa veggeiningar í nýja bílakjallaranum. Áætlað er að taka þann hluta bílakjallarans sem snýr út að Garðatorgi í notkun í desember nk.
  • Norðan við Garðatorg 1 er vinna hafin við nýja vörumóttöku. Þar er byrjað að steypa upp innkeyrslurampa sem mun þjónusta matvörubúðina Víði og í kjölfarið verður eldri móttaka vestan hússins lögð af.

Fljótlega verður að loka Bæjarbraut við Garðatorg í um vikutíma á meðan lagðar verða nýjar veitulagnir frá svæðinu undir hana. Jafnframt þarf að tengja nýjar lagnir úr bílakjallaranum við brunn fyrir framan Garðatorg 5 (Arion banka). Því miður mun sú vinna hefta för að göngugötunni, en lögð verður rík áhersla á að vinna það verk hratt og örugglega og að það taki ekki lengri tíma en nokkra daga.

Garðabær, Klasi og allir þeir sem að verkinu koma eru þakklátir fyrir þann skilning og biðlund sem íbúar, rekstraraðilar og gestir torgsins hafa sýnt fram að þessu og munu leggja sig alla fram við að gera aðstæður á framkvæmdasvæðinu betri og bæta aðgengi og bílastæðamál eins hratt og auðið er.

Fréttabréf um stöðu framkvæmda í miðbænum í september 2013