25. okt. 2016

Fjölbreytt þróunarverkefni leik- og grunnskóla kynnt

Félagsleg virkni og sjálfsmynd unglinga, forritun vélmenna, heimspeki og málörvun eru á meðal viðfangsefna fjölmargra þróunarverkefna sem unnið er að í leik- og grunnskólum í Garðabæ.
  • Séð yfir Garðabæ

Félagsleg virkni og sjálfsmynd unglinga, forritun vélmenna, heimspeki og málörvun eru á meðal viðfangsefna fjölmargra þróunarverkefna sem unnið er að í leik- og grunnskólum í Garðabæ. Þessi verkefni og mörg önnur voru kynnt á sérstökum menntadegi mánudaginn 24. október kl. 12.30-14 en þá var starfsdagur í skólunum.

Kennarar af báðum skólastigum sóttu menntadaginn og fræddust hver af öðrum. Verkefnin sem þar voru kynnt hafa fengið styrki úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla í Garðabæ.

Menntadagurinn var haldinn í Hofsstaðaskóla og fóru kynningarnar fram á tvennan hátt, í kynningarbásum og í málstofu. Bókasafn Garðabæjar og Hönnunarsafn Íslands voru einnig með bása þar sem þau kynntu starfsemi sína.  

Dæmi um verkefni sem voru kynnt:

“Það geta allir verið gordjöss” – Álftanesskóli

Sértækt hópastarf sem hefur það markmið að skapa vettvang fyrir nemendur til að auka félagslega virkni þeirra og hvetja þá til að koma með hugmyndir að tómstundastarfi sem höfðar til þeirra. Með þessu er unnið í að styrkja sjálfsmynd þátttakenda, efla samskipta- og félagsfærni, stuðla að heilbrigðum lífsháttum eða vinna gegn óæskilegu hegðunarmynstri.

First Legó League: forritun og hönnun –– Garðaskóli

Kynnt verður verkefnið First Lego league sem er forritunarlegokeppni grunnskóla. Í First Lego forrita nemendur tölvukubb og hanna og byggja vélmenni sem til að leysa ákveðnar þrautir. Nemendur vinna út frá þema keppninnar, finna sér viðfangsefni innan þess sviðs og búa til kynningu sem þeir flytja á keppnisdegi. Í framtíðarsýn Garðaskóla er lögð sérstök áhersla á að virkja stelpur betur inn á þetta svið.

Það er spurning – leikskólinn Hæðarból

Verkefnið samanstendur af 25 opnum heimspekisögum sem þýddar hafa verið úr bókinni „Thinking Stories, to Wake Up Your Mind“ eftir Mike Fleetham. Sögurnar eru nýttar sem kveikjur að heimspekilegri samræðu.

Sögupokar – leikskólinn Akrar

Skemmtilegt og lifandi námsefni fyrir yngri börn. Markmiðið er að samþætta sem flesta námsþætti sem unnið er með samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla. Áhersla er á markvissa málörvun, aukinn orðaforða, málvitund, frásagnarhæfni og að byggja góðan grunn fyrir áframhaldandi lestrarfærni. Einnig er unnið með ýmis stærðfræðihugtök, tónlist, - myndlist, samvinnu og jákvæð samskipti. Þetta verkefni er mjög myndrænt og fallegt.

Yfirlit yfir verkefnin sem voru kynnt í málstofum.

Yfirlit yfir kynningarbása á menntadeginum.

 Myndir frá menntadeginum á fésbókarsíðu Garðabæjar.