23. ágú. 2013

Öflugt starf framundan í Tónlistarskólanum

Tónlistarskóli Garðabæjar verður settur mánudaginn 26. ágúst nk. kl. 17:30 í sal skólans í Kirkjulundi 11, kennsla hefst þriðjudaginn 27. ágúst.
  • Séð yfir Garðabæ

Tónlistarskóli Garðabæjar verður settur mánudaginn 26. ágúst nk. kl. 17:30 í sal skólans í Kirkjulundi 11, kennsla hefst þriðjudaginn 27. ágúst. Í vetur fer fram kennsla í flestum grunnskólum bæjarins, og í húsnæði tónlistarskólans að Kirkjulundi 11 og  Breiðumýri, Álftanesi.

Komandi skólaár er um margt merkilegt því nú sameinast 2 tónlistarskólar í sveitarfélaginu undir nafni Tónlistarskóla Garðabæjar.  Að sögn Laufeyjar Ólafsdóttur skólastjóra tónlistarskólans gefur þessi sameining möguleika á kraftmiklu, fjölbreyttu og skemmilegu skólastarfi.

Í Tónlistarskóla Garðabæjar fer fram klassískt og rytmískt tónlistarnám,  kennt er á flest algengustu hljóðfæri auk söngs.  Einnig er boðið upp á suzukitónlistarnám á fiðlu, víólu, selló, píanó, og gítar. Tónlistarskólinn getur enn tekið við umsóknum í forskóla.  Leitast er við að kennsla í forskóla fari fram í grunnskóla nemendanna eftir því sem kostur er.

Söngsmiðja fyrir 9-10 ára
Í vetur verður farið af stað með tilraunaverkefni sem nefnist Söngsmiðja, en hún er ætluð nemendum  9 – 10 ára.  Í söngsmiðjunni verður blandað saman söng og leik, auk þess sem undirstöðuatriði tónlistar verða kynnt. Kennt verður í litlum hópum. Hér er um að ræða spennandi námstilboð fyrir unga nemendur sem hafa áhuga á söng. Kennslan fer fram í Kirkjulundi 11.

Upplýsingar á vefsíðu og fésbókarsíðu
Á nýrri vefsíðu skólans, www.tongar.is má nálgast upplýsingar um skólastarfið.  Auk þess heldur skólinn úti skemmtilegri fésbókarsíðu þar sem birtar eru tilkynningar um tónleika og viðburði og myndir úr skólastarfinu.
Skrifstofa skólans er staðsett í Kirkjulundi 11 og er hún opin mánudaga til fimmtudaga frá kl. 12-17, s. 540 8500.