16. maí 2014

Hátíðartónleikar í tilefni af 50 ára afmæli Tónlistarskólans

Tónlistarskóli Garðabæjar býður öllum bæjarbúum til hátíðartónleika í Vídalínskirkju, laugardaginn 17. maí kl. 14, í tilefni af 50 ára afmæli skólans.
  • Séð yfir Garðabæ

Tónlistarskóli Garðabæjar býður öllum bæjarbúum til hátíðartónleika í Vídalínskirkju, laugardaginn 17. maí kl. 14, í tilefni af 50 ára afmæli skólans. Á tónleikunum koma fram margir af fyrrverandi og núverandi nemendum skólans. Kynnir á tónleikunum verður Jón Svavar Jósefsson söngvari og fyrrum nemandi tónlistarskólans. Að loknum tónleikum verður boðið upp á kaffi í húsnæði skólans að Kirkjulundi. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir

Framsækinn Tónlistarskóli í fremstu röð

Í Tónlistarskóla Garðabæjar fer fram fjölbreytt tónlistarnám og þar eru nú 520 nemendur og 47 starfsmenn. Skólastjóri er Laufey Ólafsdóttir sem tók við skólastjórastöðunni í ágúst 2012. Skólinn skiptist í sjö deildir: blásaradeild, forskóladeild, píanódeild, rytmíska deild, strengjadeild, suzukideild og söngdeild. Húsnæði skólans er við Kirkjulund í Garðabæ og í Álftanesskóla en auk þess fer mikil kennsla fram í grunnskólum bæjarins. Í skólanum er lögð áhersla á samleik og samsöng nemenda og að nemendur komi fram á tónleikum í skólanum og víðar. Þar eru starfandi samspilshópar, blásarasveitir og strengjasveitir. Skólinn heldur fjölmarga tónleika á ári hverju og gegnir mikilvægu hlutverki við að efla tónlistarlíf og tónlistaráhuga í Garðabæ.

Upphaf skólans árið 1964

Aðalhvatamenn að stofnun Tónlistarskóla Garðabæjar árið 1964 voru Helgi K. Hjálmsson, Vilbergur Júlíusson, skólastjóri barnaskólans, sr. Bragi Friðriksson og Ólafur G. Einarsson, þáverandi sveitarstjóri. Skólinn hét fyrst Tónlistarskóli Garðahrepps sem var síðar breytt í Tónlistarskólinn í Görðum og árið 1984 fékk skólinn núverandi heiti. Tónlistarskólinn á Álftanesi var upphaflega deild frá Tónlistarskóla Garðabæjar og varð síðar sjálfstæður tónlistarskóli. Í fyrra sameinuðust Tónlistarskóli Álftaness og Tónlistarskóli Garðabæjar aftur.

Fjölbreyttir viðburðir á afmælisárinu

Á afmælisárinu hefur verið bryddað upp á ýmsum skemmtilegum nýjungum. Meðal þeirra eru ,,flash-mob“ uppákomur víðs vegar um Garðabæ þar sem nemendur hafa troðið óvænt upp með hljóðfæraleik. Hópur ungra hljóðfæraleikara á saxófón og slagverk úr skólanum hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í opnum flokki á lokatónleikum Nótunnar, uppskeruhátíð tónlistarskóla landsins, í lok mars á þessu ári. Vinningsatriðið verður endurflutt á stórtónleikunum sem verða haldnir í Vídalínskirkju á laugardaginn.