Bæjarstjóri fékk góða heimsókn
Hópur fatlaðra ungmenna sem hefur starfað hjá Garðabæ í sumar heimsótti bæjarskrifstofurnar í dag. Hópurinn var að endurgjalda heimsókn Gunnars Einarssonar bæjarstjóra en hann kom við á starfsstöð þeirra í Flataskóla um daginn og þáði veitingar sem ungmennin höfðu undirbúið.
Í heimsókn sinni fékk hópurinn stutta kynningu á Garðabæ, þar sem m.a. var fjallað um stærð bæjarins, íbúafjölda, stjórnun bæjarfélagsins og helstu verkefnin sem starfsfólk þess sinnir. Ungmennin voru áhugasöm um málefni bæjarins og skapaðist góð umræða um þau. Bæjarstjóri bauð upp á ís og jarðarber sem var vel við hæfi á þessum fallega sólardegi í Garðabæ.
Að kynningunni lokinni sýndi bæjarstjóri ungmennunum bæjarskrifstofurnar og fór m.a. með þeim í mötuneyti starfsmanna sem er á sjöundu hæð í turninum þar sem þau nutu útsýnis yfir bæinn.
Hópurinn hefur í sumar starfað að ýmsum verkefnum tengdum umhirðu bæjarins en einnig tekið þátt í frístundastarfi, þar sem áhersla er lögð á að að efla sjálfstæði einstaklinga og styrkja félagsleg tengsl.
Á myndinni eru ungmennin ásamt verkefnisstjóranum Elínu Ólafsdóttur, öðru starfsfólki sem vinnur með hópnum og veitir hverjum og einum nauðsynlegan stuðning til að dafna í starfi, bæjarstjóra, upplýsingastjóra, umhverfisstjóra og Sólveigu Steinsson þroskaþjálfa.