9. júl. 2013

Garðbæingar orðnir 14 þúsund

Garðbæingar urðu 14 þúsund talsins 13. júní sl. þegar lítill drengur sem býr á Álftanesi kom í heiminn.
  • Séð yfir Garðabæ

Garðbæingar eru nú orðnir fleiri en 14 þúsund talsins. Talan 14 þúsund náðist þann 13. júní sl. þegar myndarlegur drengur sem býr á Álftanesi kom í heiminn. Drengurinn, sem hefur fengið nafnið Axel Hugi, er sonur hjónanna Höddu Hrundar Guðmundsdóttur og Þórðar Guðsteins Péturssonar. Hann á einn eldri bróður sem heitir Óðinn Sturla og er fæddur árið 2010.

Góðar gjafir frá fyrirtækjum í bænum

Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar heimsóttu Axel Huga og fjölskyldu hans í tilefni af þessum tímamótum og færðu þeim góðar gjafir.

Fyrirtækið 66°norður sem er með höfuðstöðvar sínar í Garðabæ gaf barninu ungabarnagallann Kríu og fyrirtækið Allt merkilegt, sem er staðsett á Garðatorgi gaf bræðrunum báðum boli með áletruninni "Ég bý í Garðabæ". Gunnar og Áslaug komu líka með fallegan blómvönd frá blómabúðinni Sóleyjarkoti á Garðatorgi og með ostakörfu í boði bæjarstjórnar.

Ánægð á Álftanesi

Fjölskylda 14 þúsundasta Garðbæingsins flutti á Álftanes á síðasta ári og þar kunna þau afar vel við sig. Eldri sonurinn, Óðinn Sturla, er á leikskólanum Krakkakoti sem foreldrarnir segja sérlega góðan leikskóla þar sem drengnum líði vel.

Hröð fjölgun í bænum

Aðeins eru rúm tvö ár  síðan fæðingu 11 þúsundasta Garðbæingsins var fagnað. Við síðustu áramót fjölgaði Garðbæingum um, um það bil 2500 þegar Garðabær og Álftanes sameinuðust undir nafninu Garðabær sem skýrir þessa hröðu fjölgun.  

Á myndinni eru frá vinstri: Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Hadda Hrund Guðmundsdóttir, Óðinn Sturla Þórðarson, Þórður Guðsteinn Pétursson með Axel Huga í fanginu og Áslaug Hulda Jónsdóttir.

Sjá líka á facebook síðu Garðabæjar