Sprengivinna hafin á Garðatorgi
Sprengivinna vegna framkvæmdanna á Garðatorgi hófst í dag. Aníta Dís Atladóttir, 5 ára leikskólastúlka í Garðabæ ýtti á takkann sem setti fyrstu sprengjuna af stað, undir vökulum augum sprengistjórans og afa síns, bæjarstjóra Garðabæjar.
Miðbær til framtíðar
Framkvæmdirnar hófust 11. júní sl. og ganga samkvæmt áætlun. Fyrsti áfangi þeirra er gerð bílakjallara á Garðatorgi og er sprengivinnan liður í þeirri framkvæmd. Við hæfi þótti að fulltrúi ungu kynslóðarinnar sæi um að koma þeirri vinnu af stað enda er markmið framkvæmdanna að byggja nýjan miðbæ þar sem Garðbæingar geta sótt verslun, þjónustu og menningu til framtíðar. Aníta Dís reyndist efnileg sem sprengustjóri en hún sýndi engin hræðslumerki þegar hún ýtti á takkann og sprengdi þannig fyrstu sprengjuna að nýjum miðbæ.
Tekur 4-6 vikur
Gert er ráð fyrir að sprengivinnan standi í 4-6 vikur og að sprengt verði 2-5 sinnum á dag. Við þessar sprengingar finnur fólk fyrir höggbylgju sem berst með berggrunninum. Í húsum í meira en 80 m fjarlægð á titringurinn að vera mjög lítill þótt búast megi við að hann finnist mun lengra í burtu en það. Glös sem standa þétt saman geta glamrað og betra er að hlutir séu ekki látnir standa tæpt þannig að þeir falli við minnsta hristing. Sprengt verður eftir kl. 9 á morgnana og ekki seinna en kl. 20 á kvöldin.
Viðvörunarflautur blása nokkrum mínútum áður en sprengt er. Ekki er þörf á að gera frekari ráðstafanir vegna sprenginganna.
Allir viðkomandi aðilar eru beðnir afsökunar á ónæðinu sem af þessu getur hlotist.