4. júl. 2013

Hallgrímur Sæmundsson jarðsunginn

Hallgrímur Sæmundsson, fyrrverandi hreppsnefndarmaður í Garðahreppi og yfirkennari við Flataskóla verður jarðsunginn frá Vídalínskirkju kl. 15 í dag. Hallgrímur lést 22. júní sl.
  • Séð yfir Garðabæ

Hallgrímur Sæmundsson, fyrrverandi hreppsnefndarmaður í Garðahreppi og yfirkennari við Flataskóla verður jarðsunginn frá Vídalínskirkju kl. 15 í dag. Hallgrímur lést 22. júní sl. Flaggað verður í hálfa stöng við Ráðhús Garðabæjar í dag.

Hallgrímur Sæmundsson fæddist á Stóra-Bóli á Mýrum í Hornafirði 19. júní 1926.  Árið 1960 flutti hann ásamt eiginkonu sinni í Goðatún í Garðahreppi og bjó þar til æviloka. Hallgrímur tók virkan þátt í bæjarlífinu og starfaði töluvert á vettvangi bæjarmála.  Hann kenndi við Barnaskóla Garðahrepps, sem síðar hlaut nafnið Flataskóli, frá 1960-1986 og var þar yfirkennari frá árinu 1971.

Hallgrímur var formaður áfengisvarnanefndar í Garðahreppi frá 1960 og sat í hreppsnefnd á árunum 1970-1974. Hann var einnig í skólanefnd Tónlistarskólans í Görðum á árunum 1974-1982. Hallgrímur var einn af stofnendum æskulýðsfélagsins Stjörnunnar 1960 og sat í stjórn þess fyrstu árin.

Hallgrímur vann einnig mikið að málefnum heyrnarlausra og heyrnarskertra og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum á þeim vettvangi. Þá var hann mikill áhugamaður um útbreiðslu alþjóðamálsins esperanto og vann mikið fyrir samtök þeirra á Íslandi.

Bæjarstjórn Garðabæjar kveður Hallgrím með virðingu og þökkum fyrir góð störf í þágu bæjarins og sendir eftirlifandi eiginkonu hans og afkomendum innilegar samúðarkveðjur.