Gaman á þjóðhátíðardeginum
Í Garðabæ var fjölbreytt dagskrá í boði á þjóðhátíðardaginn 17. júní sl. Að morgni til var meðal annars boðið upp á hestaferðir fyrir fram Álftaneslaug, kanó og kajaksiglingar í Sjálandi og einnig gátu Garðbæingar notið þess að fara í sund í Álftaneslaug og veiða í Vífilsstaðavatni.
Hátíðardagskrá var að morgni til á Álftanesi þar sem var farið í skrúðgöngu og boðið upp á skemmtiatriði við íþróttamiðstöðina. Árlegt kaffihlaðborð Kvenfélags Álftaness var haldið síðar um daginn í íþróttamiðstöðinni. Einnig var árleg hátíðarstund í Vídalínskirkju þaðan sem skrúðganga hélt niður að hátíðarsvæði við Garðaskóla. Þar voru fjölmörg skemmtiatriði og ýmis leiktæki fyrir börn á öllum aldri síðdegis. Kvenfélag Garðabæjar var með sitt árlega kaffihlaðborð í Flataskóla. Dagskráin að degi til var í umsjón skátafélagsins Vífils.
Um kvöldið voru hátíðartónleikar í safnaðarheimili Vídalínskirkju, Kirkjuhvoli.. Þar steig hljómsveitin Salon Islandus á svið ásamt Auði Gunnarsdóttur sópransöngkonu. Fjölmargir lögðu leið sína í safnaðarheimilið til að hlusta á ljúfa vínartónlist og fleiri lög í skemmtilegum flutningi hljómsveitarinnar. Góður endir á hátíðardegi.